Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech og bandaríski lyfjarisinn Pfizer hyggjast starfa saman til að þróa mRNA bóluefna gegn smitsjúkdómnum ristli (e. shingles) og fara þar með í samkeppni við flaggskip breska lyfjafyrirtækisins GlaxoSmithKline (GSK). Financial Times greinir frá.
BioNTech og Pfizer vonast til að endurtaka vel heppnað samstarf við þróun á bóluefni gegn Covid-19. Þar hefur BioNTech útvegað mRNA tækni sem þýska fyrirtækið er með einkaleyfi á, og Pfizer ræðst í rannsóknir á mótefnavökum (e. antigen). Pfizer hafði áður gefið í skyn að það myndi hefja þróun á mRNA bóluefnum á eigin vegum.
Sjá einnig: Tekjur borgarinnar margfaldast út af Covid
Fjárfesting bóluefnaframleiðenda í mRNA hefur aukist verulega eftir að tæknin nýttist gegn Covid-farsóttinni. Mörg fyrirtæki horfa til sjúkdóma sem ekki er búið að þróa bóluefni gegn eða þar sem fyrri bóluefni voru ekki mjög áhrifarík, líkt og með inflúensuna.
Pfizer og BioNTech ákváðu þó að horfa til ristils, jafnvel þó GSK fékk bóluefni samþykkt gegn sjúkdómnum árið 2017. Bóluefni GSK, Shingrix, veitir meira en 90% vörn en breski lyfjaframleiðandinn hefur hins vegar átt í erfiðleikum með að auka framleiðslu sína til að anna eftirspurn. Pfizer og BioNTech vonast til að auðveldara verði að skala upp framleiðslu á bóluefni sem byggt er á mRNA tækninni.
Sala á Shingrix bóluefninu nam 502 milljónum punda á þriðja fjórðungi 2021, sem er 34% aukning frá sama tímabili árið áður.
Um einn af hverjum þremur Bandaríkjamönnum fær ristil í gegnum ævina. Ristill eru sársaukafullar smáblöðrur af völdum hlaupabólu-ristilveiru.