Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákærði olíufyrirtækið Phillips 66 í síðustu viku fyrir að hafa losað næstum 800 þúsund lítra af menguðu skólpi í fráveitukerfi Los Angeles og síðan sleppt því að tilkynna yfirvöldum um atvikið.
Olíufyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Houston, losaði skólpið úr hreinsunarstöð sinni í Carson í Kaliforníu árin 2020 og 2021. Skólpið innihélt þá óhóflega mikið magn af olíu og fitu.
Dómsmálaráðuneytið ákærði Phillips 66 í tveimur ákæruliðum um að hafa brotið gegn Clean Water Act-lögunum af gáleysi og í fjórum ákæruliðum um að hafa vísvitandi brotið gegn sömu lögum. Þeir seku eiga yfir höfði sér fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir hvern lið og allt að 2,4 milljóna dala sekt.
„Það að vernda umhverfið okkar er lykillinn að því að vernda samfélagið. Rétt eins og við hin, þá ber fyrirtækjum skylda til að fara eftir lögum, þannig þegar fyrirtæki menga verða þau að bera ábyrgð á því,“ segir Martin Estrada, lögfræðingur Kaliforníuríkis í málinu.
Thaddeus Herrick, talsmaður fyrirtækisins, segir að Phillips 66 muni halda áfram að starfa með yfirvöldum og að fyrirtækið sé tilbúið að fara með málið fyrir dómstóla ef til þess kemur.