Pipar\TBWA hefur keypt hlut í norsk-breska fyrirtækinu Aida Social en Aida hefur þróað heildstætt gervigreindarforrit sem hannar, skapar og býr til efni meðal annars fyrir samfélagsmiðlaefni, auglýsingar, blogg og fréttabréf.
Suzann Webb, sem leiðir stefnumótun Aida, segir það skipta miklu máli að fá inn fyrirtæki eins og Pipar\TBWA.
„Við erum mjög ánægð með að Pipar\TBWA sé komið til liðs við okkur. Pipar\TBWA og dótturfélögin SDG\TBWA í Noregi, Ceedr í Noregi, Ceedr í Danmörku og Ceedr í Finnlandi auk stofunnar á Íslandi koma til með að þróa með okkur leiðir til efnissköpunar fyrir fyrirtæki þvert á miðla.“
Aida er nú þegar í notkun hjá fjölda fyrirtækja í Bretlandi og í Noregi en lausnin hefur verið kynnt á viðburðum á vegum FSB og Hashtag Events í Bretlandi.
„Við verðum alltaf að horfa til framtíðar og með því að eignast hlut í Aida og bjóða viðskiptavinum okkar upp á að nota þessa tækni tökum við þátt í þróuninni, viðskiptavinum okkar til hagsbóta,“ segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA.