Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp um bann við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða frá og með 1. janúar 2026. Andrés Ingi Jónsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Í greinargerð frumvarpsins segir að losun gróðurhúsalofttegunda vegna vegasamgangna sé um 20% af allri losun utan landnotkunar. Ef aðeins sé horft á svokallaða samfélagslosun þá er rúmur þriðjungur hennar vegna vegasamgangna.

„Það er því til mikils að vinna að ná hröðum og róttækum orkuskiptum á því sviði. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa að mestu falist í stuðningi við kaup á ökutækjum sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum, en óljósara hefur verið hvað stjórnvöld ætlast fyrir með boðað bann á nýskráningum ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.“

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir undanþágu fyrir ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi viðbragðsaðila.

Segja bagalegt að ekki liggi fyrir nákvæm tímasetning

Þingmenn Pírata „bagalegt“ að enn liggi ekki fyrir frumvarp, í samræmi við aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, um nákvæma tímasetningu slíks banns „í ljósi þess m.a. að gæta verður að fyrirsjáanleika fyrir innflutningsaðila í greininni“.

Þeir vísa þannig til þess að í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem birt var í september 2018, var sett fram það markmið að nýskráning dísil- og bensínbíla yrði óheimil eftir árið 2030.

Þegar aðgerðaáætlunin var uppfærð í júní 2024 hafi sú aðgerð hljóðað upp á að óheimilt yrði að meginreglu að nýskrá fólks- og sendiferðabifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti árið 2027.

„Stuttu eftir birtingu var skjali í samráðsgátt stjórnvalda breytt í tvígang þannig að dregið var úr metnaði – fyrst með því að færa ártalið til 2028 og síðan með því að í lokaútgáfu er þetta markmið aðeins sagt vera í skoðun, frekar en að það sé fast í hendi,“ segir í greinargerðinni.

Stöðva þurfi nýskráningar „tafarlaust“ ef markmið eiga að nást

Þingmennirnir segja að hafa verði í huga að meðallíftími bifreiða geti verið á annan tug ára og meðalaldur bílaflotans á Íslandi sé um 12 ár.

Þetta hafi verið tilefni þess að Orkustofnun valdi yfirskriftina „Er pláss fyrir einn bensínbíl í viðbót?“ þegar hún kynnti orkuskiptalíkan sitt haustið 2022.

„Niðurstaðan var skýr: Ef ætlunin væri að standa við markmið í loftslagsmálum þyrfti tafarlaust að hætta nýskráningum á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Frá þeim tíma hafa verið nýskráðir um 20 þúsund fólksbílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Þingmenn Pírata segja mikilvægt að setja skýrar vörður á leið til kolefnishlutleysis, sem kalli m.a. á að lög séu sett fyrr frekar en síðar um þær breytingar sem gera þarf til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Líkt og lesa má af aðgerðaáætlun stjórnvalda er bann við nýskráningum bensín- og dísilbíla hluti af þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru, en með þessu frumvarpi er lagt til að hrinda þeirri aðgerð í framkvæmd frekar en að ýta henni á undan sér líkt og ríkisstjórnin gerir.“