Icelandair hóf í síðustu viku flug til Pittsburgh í Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum en flogið verður fjórum sinnum í viku út október.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, segir að Pittsburgh sé aðlaðandi að því leytinu til að um er að ræða einn af stærstu mörkuðunum sem eru enn ósnertir þar sem hægt er að fara fram og til baka með sömu vélinni innan 24 klukkustunda.

Icelandair hóf í síðustu viku flug til Pittsburgh í Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum en flogið verður fjórum sinnum í viku út október.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, segir að Pittsburgh sé aðlaðandi að því leytinu til að um er að ræða einn af stærstu mörkuðunum sem eru enn ósnertir þar sem hægt er að fara fram og til baka með sömu vélinni innan 24 klukkustunda.

„Það sem að er líka aðlaðandi við þennan markað er að það er lítil þjónusta til Evrópu út frá Pittsburgh flugvelli, það er í rauninni bara eitt annað Evrópuflug frá vellinum, en British Airways flýgur þaðan til London. Að öðru leyti þarftu alltaf að tengja einhvers staðar annars staðar til þess að komast til Evrópu. Þar teljum við að Ísland sé gríðarlega góður kostur,“ segir Tómas.

Miklar markaðsrannsóknir liggja að baki valinu á Pittsburgh en tímabilið verður gert upp í október. Þá verður ákvörðun tekin um framhaldið og mögulega framlengt ef vel gengur en það var til að mynda gert með Raleigh-Durham strax á fyrsta ári.

„Gamla þumalputta reglan var að svona staðir þyrftu eitt, tvö, þrjú ár til að verða virkilega góðir en við höfum einfaldlega séð það núna á undanförnum árum að þessir nýju staðir sem við höfum verið að bæta við hafa verið að koma inn mjög sterkir frá upphafi.“

Pittsburgh er sextándi áfangastaður Icelandair í Norður-Ameríku og búa um 16,5 milljónir manna á markaðssvæði flugvallarins. Að sögn Tómasar hefur bandaríski markaðurinn verið gríðarlega sterkur á undanförnum árum og mikil eftirspurn frá Bandaríkjamönnum að heimsækja Ísland.

Fram undan séu spennandi tímar og ákveðnir staðir á listanum sem horft verði til á næstu misserum, beggja vegna Atlantshafsins.

„Það eru einhverjir tiltölulega stórir markaðir enn þá sem er ekki verið að þjónusta en síðan erum við gríðarlega spennt að vera að finna svona gullmola eins og Raleigh eða Pittsburgh þar sem er lítil þjónusta, minni markaður, en eitthvað sem getur hentað okkar módeli með tiltölulega litlar vélar og stórt leiðarkerfi sem við getum dreift farþegunum á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.