„Það eru meiri líkur á að sjá belju fljúga en að upplifa sjálfsögð réttindi víða,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA á Alþjóðdegi kvenna.
„Plánetan er undarlegur bær svo ég vísa í eitt erindið sem var á dagskrá á glæsilegum hádegisverðarfundi FKA á Hótel Reykjavík Grand í tilefni af Alþjóðadegi kvenna 8. mars 2023,“ bætir Andrea við.
Það voru þrjár merkar konur sem sögðu sögu sína að þessu sinni, deildu reynslu sinni á árlegum viðburði Alþjóðanefndar Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA.
Claudia A. Wilson, lögmaður og eigandi Claudia & Partners Legal Services var með áhrifamikið erindi með yfirskriftinni „Inngilding og að tilheyra – kallar vorið enn?“.
Magrét Pála Ólafsdóttir, Hjallastefnunni, var með enn eina negluna í erindi sem bar heitið „Ójafn réttur til jafnréttis“.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, var með erindi sem reif heldur betur í og bar yfirskriftina „Réttlæti“.
„Magga Pála er náttúrulega eins og uppistandari og segir svo skemmtilega frá og fékk salinn til að skella margoft uppúr en var samt að segja erfiða hluti. Hún hefur sannarlega verið með vindinn í fangið og hefur í gegnum tíðina verið beðin um að vera ekki að fá allar þessar klikkuðu hugmyndir. Sem betur fer hætti hún því ekki,“ segir Andrea og hlær.
„Þuríður deildi af sinni reynslu þar sem staða fatlaðra kvenna er víða slæm og afar sérstök svo ekki sé meira sagt, hún ræddi viðmótið sem breyttist við það að verða fötluð kona. Fólk fór að tala hátt og klappa henni á vangann og ég er að tengja svo sterkt við þetta því þegar ég var að vinna hjá minni allra bestu Svövu í 17 á síðustu öld. Þá var ein manneskja í hjólastól sem kom ávallt til mín að versla því henni fannst svo gott að ég ávarpaði hana sjálfa en ekki fylgdarmanneskju hennar sem vanalega var spurð „Fílar hún þetta?“ „Hvaða stærð notar hún?“. Nú afkomuótti, viðmót, samkynhneigð, ólík forgjöf og fleiri stef voru þarna allan viðburðinn á Hótel Reykjavík Grand og fullt af hlutum nefndir sem eru engan veginn smart, algjörlega óásættanlegir og við megum bara alveg vera bálreið. Bálreiðar,“ segir Andrea ákveðin. „Og við vorum þarna alls konar konur, allt konur á Íslandi sem láta til sín taka í stóru og smáu, allar þakklát fyrir innblásturinn,“ segir Andrea. „Mikilvægt að hlusta en svo tala minna, gera meira og áfram með smjörið!“
Fjölbreytileiki og jöfnuður
Yfirskrift dagsins í ár var „Embrace equity“ eða umvefjum fjölbreytileika og jöfnuð en Alþjóðanefnd FKA boðar til hádegisverðarfundar ár hvert og það er Jónína Bjartmarz, lögmaður, athafnakona, fyrrv. alþingismaður, ráðherra og fyrsti formaður FKA sem hefur verið potturinn og pannan er kemur að því að fagna þessum degi með stæl.
Fjöldasöngur var leiddur af Björgu Birgisdóttur og undirleikara en söngurinn er ein af hefðunum þegar FKA heldur upp á Alþjóðadag kvenna.
Í Alþjóðanefnd FKA í ár eru þær Gyða Björg Sigurðardóttir, Laufey Þorsteinsdóttir, Sandra Yunhong She, Stefanía G. Kristinsdóttir og Jónína Bjartmarz sem setti saman glæsilega dagskrá.
„Það er yfirleitt sem við göngum með kassann út eftir daginn en það er klárt mál að lífið sökkar á löngum köflum við það eitt að vera eða vilja vera fullgildur samfélagsþegn. Sem betur fer hefur margt áunnist og margvíslegur árangur náðst þökk sé brautryðjendum eins og þeim sem stigu á stokk hjá FKA í ár. Ég fæ ekki nóg af því að beina kastaranum að konum sem hafa rutt brautir, upplifað útskúfun, glatað virðingu sinni bara fyrir það eitt að vilja ekki vera í einhverju boxi sem er skapalón fyrir útvalda í raun. Við grenjum svo úr gleði allar í kór að upplifa virði, inngildingu og eins og heima hjá okkur þegar við erum nákvæmlega eins og við eigum að vera, allskonar. Það er ekkert gefið þegar kemur að jafnréttinu,“ segir Andrea.