Hlutabréfaverð Play lækkaði þriðja viðskiptadaginn í röð og stendur nú í 10 krónum á hlut eftir 5,7% lækkun í dag. Gengi flugfélagsins hefur fallið um 29% frá birtingu ársuppgjörs fyrir tæpum tveimur vikum síðan og hefur aldrei verið lægra.
Úrvalsvísitalan féll um 1,6% í 4,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þá lækkaði gengi bréfa 17 félaga á aðalmarkaði. Mest lækkaði gengi fasteignafélagsins Eikar, eða um 3,3% í 80 milljóna viðskiptum. Auk Eikar lækkuðu hlutabréf Símans um 2,7% og bréf Skeljar fjárfestingarfélags um 2,5%.
Mesta veltan var með bréf Arion banka, sem lækkuðu um tæp 2% í 690 miljón króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Alvotech, sem hefur verið á mikilli siglingu, lækkaði um 1,5% í 680 milljóna veltu. Þá lækkaði Marel um 1,75% og Kvika um 1,5%.
Eina félagið á aðalmarkaði sem hækkaði í viðskiptum dagsins var Sýn, um 0,85% í 20 milljón króna viðskiptum.