Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9% í 3,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán félög aðalmarkaðarins lækkuðu og fimm hækkuðu.
Play leiddi lækkanir en gengi hlutabréfa flugfélagsins féll um 16,8% í 94 viðskiptum sem samtals hljóðuðu upp á 12 milljónir króna. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 0,77 krónum á hlut og hefur aldrei verið lægra frá skráningu félagsins í Kauphöllina sumarið 2021.
Hlutabréfaverð Play er nú 82,9% undir 4,5 króna útgáfuverðinu í 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningunni sem félagið lauk vorið 2024.
Play birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar á mánudaginn. Flugfélagið tapaði yfir 9 milljörðum króna í fyrra, að hluta til vegna afskrifta á skattainneign, og eigið fé félagsins var neikvætt um 4,6 milljarða króna í árslok 2024. Lausafjárstaða félagsins var aftur á móti betri en á sama tíma árið áður, og nam 3,3 milljörðum króna um áramótin.
Í uppgjörstilkynningu Play var bent á að, endurskoðendur félagsins hefðu gefið út fyrirvaralausa áritun í ársreikningi en þó komið með ábendingu um rekstrarhæfi félagsins. Flugfélagið sagði að í þessari ábendingu sé ekki gert ráð fyrir jákvæðum áhrifum nýs viðskiptalíkans á rekstur Play.
Kauphöllin tilkynnti samdægurs um að Play hefði verið athugunarmerkt vegna ábendinga endurskoðanda í tengslum við rekstrarhæfi útgefanda (e. going concern).
Í kjölfar fréttaflutnings í gær birti Kauphöllin leiðréttingu á tilkynningu sinni í morgun og ítrekaði að í athugunarmerkingunni felist ekki mat Nasdaq Iceland á rekstrarhæfi félagsins heldur sé hún gerð til að vekja athygli á ábendingu endurskoðandans. Athugunarmerkingin sé framkvæmd í samræmi við reglur markaðarins.
Alvotech lækkað um 10,8% í ár
Auk Play lækkuðu hlutabréf sjö annarra félaga aðalmarkaðarins um eitt prósent eða meira. Alvotech lækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,2% í 442 milljóna veltu. Gengi Alvotech stendur í 1.665 krónum á hlut og er um 10,8% lægra en í upphafi árs.
Hlutabréfaverð Amaroq Minerals lækkaði einnig um 2,7% í 30 milljóna veltu og stendur nú í 183 krónum á hlut, sem er lítillega hærra en í upphafi árs.
Oculis var eina félagið sem hækkaði um meira en eitt prósent í dag. Hlutabréfaverð augnlyfjaþróunarfélagsins hækkaði um 2,7% í 176 milljóna veltu og stendur nú í 3.020 krónum.