Flug­fé­lagið Play hefur á­kveðið að boða fjár­festa og markaðs­aðila á eftir­mið­dags­fund með stjórn­endum fé­lagsins á Grand Hótel á fimmtu­daginn.

„Á fundinum munu lykil­stjórn­endur veita inn­sýn í rekstur fé­lagsins. Farið verður yfir þann árangur sem fé­lagið hefur náð nú í lok þriðja sumars í rekstri og mat stjórn­enda á fjár­hags­legri stöðu auk á­ætlana næstu missera. Þá mun Einar Örn Ólafs­son, stjórnar­for­maður fé­lagsins, fara yfir sýn stjórnar á stöðu fé­lagsins,“ segir í Kaup­hallar­til­kynningu.

Gengi Play á First North markaðnum hefur aldrei verið lægra en það stendur í 7,75 krónum.

Í byrjun mánaðar greindi Play frá því að fé­lagið geri ekki lengur ráð fyrir skila rekstrar­hagnaði (EBIT) yfir allt árið 2023 eins og fé­lagið hafði áður spáð. Gengið hrundi í kjöl­farið og hefur fallið um 40% síðast­liðinn mánuð.

„Rekstrar­af­koma (EBIT) það sem af er þessum árs­fjórðungi hefur verið mjög góð og um­tals­verður rekstrar­bati hefur átt sér stað, hvort sem horft er til sama tíma­bils í fyrra eða síðasta árs­fjórðungs. Frá lokum síðasta árs­fjórðungs (Q2) hefur flug­véla­elds­neyti, sem er lang­stærsti ein­staki kostnaðar­liður fé­lagsins, hækkað um fjórðung,“ segir í til­kynningu fé­lagsins frá byrjun mánaðar

Play segir eina af lykil­for­sendum fyrir af­komu­spá ársins vera stöðugt elds­neytis­verð. Um­rædd hækkun „á­samt öðrum al­mennum kostnaðar­hækkunum vegna verð­bólgu í heiminum“ hafi nei­kvæð á­hrif á af­komu fé­lagsins seinni hluta ársins.