Flugfélagið Play hefur ákveðið að boða fjárfesta og markaðsaðila á eftirmiðdagsfund með stjórnendum félagsins á Grand Hótel á fimmtudaginn.
„Á fundinum munu lykilstjórnendur veita innsýn í rekstur félagsins. Farið verður yfir þann árangur sem félagið hefur náð nú í lok þriðja sumars í rekstri og mat stjórnenda á fjárhagslegri stöðu auk áætlana næstu missera. Þá mun Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður félagsins, fara yfir sýn stjórnar á stöðu félagsins,“ segir í Kauphallartilkynningu.
Gengi Play á First North markaðnum hefur aldrei verið lægra en það stendur í 7,75 krónum.
Í byrjun mánaðar greindi Play frá því að félagið geri ekki lengur ráð fyrir skila rekstrarhagnaði (EBIT) yfir allt árið 2023 eins og félagið hafði áður spáð. Gengið hrundi í kjölfarið og hefur fallið um 40% síðastliðinn mánuð.
„Rekstrarafkoma (EBIT) það sem af er þessum ársfjórðungi hefur verið mjög góð og umtalsverður rekstrarbati hefur átt sér stað, hvort sem horft er til sama tímabils í fyrra eða síðasta ársfjórðungs. Frá lokum síðasta ársfjórðungs (Q2) hefur flugvélaeldsneyti, sem er langstærsti einstaki kostnaðarliður félagsins, hækkað um fjórðung,“ segir í tilkynningu félagsins frá byrjun mánaðar
Play segir eina af lykilforsendum fyrir afkomuspá ársins vera stöðugt eldsneytisverð. Umrædd hækkun „ásamt öðrum almennum kostnaðarhækkunum vegna verðbólgu í heiminum“ hafi neikvæð áhrif á afkomu félagsins seinni hluta ársins.