Flugfélagið Play hyggst efna til hlutafjárútboðs fyrir aðra hluthafa en þá tuttugu stærstu. Náist full áskrift mun Play fá inn um einn milljarð króna til viðbótar við hlutafjáraukninguna sem tilkynnt var um í síðustu viku.

Útboðið hefst kl. 10 mánudaginn 28. nóvember og lýkur kl. 18 þann 30. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar samhliða boðun hluthafafundar.

Play tilkynnti á fimmtudaginn að það hefði náð samkomulagi við tuttugu stærstu hluthafa sína um bindandi áskriftarloforð að nýju hlutafé að andvirði 2,3 milljarðar króna á útgáfugenginu 14,6 krónur. Dagslokagengi félagsins hafði aldrei farið undir 15 krónur þegar hlutafjáraukningin var tilkynnt.

„Með bindandi áskriftarloforðum 20 stærstu hluthafa félagsins, sem tilkynnt hefur verið um, hafi félagið nú þegar tryggt þá hlutafjárhækkun sem félagið stefnir að. Útboðið sé því fyrst og fremst til þess að tryggja jafnræði hluthafa,“ segir í tilkynningunni sem Play sendi frá sér í kvöld.

„Nýti aðrir hluthafar rétt sinn til að skrá sig fyrir nýju hlutafé styrkist lausafjárstaða félagsins enn frekar.“

Allt að 71.136.258 hlutir verða í boði í útboðinu á sömu kjörum. Náist full áskrift getur útboðið orðið um einn milljarður króna að stærð.

Samhliða útgáfu hlutanna verða gefin út áskriftarréttindi að hlutum sem nema 25% af framangreindri hlutafjárútgáfu. Áskriftarverðið miðar við sama verð og í hlutafjárútgáfunni auk vaxta frá útgáfudegi. Áskriftarréttindin verða nýtanleg í 10 daga eftir birtingu ársuppgjörs 2023.

„Stjórn félagsins mun horfa til jafnræðis hluthafa við úthlutun á hinum nýju hlutum í félaginu sem seldir verða í útboðinu.“

Sjórn Play mun leggja fram tillögu um að henni verði heimilt til að gefa út allt að 228,7 milljónir nýja hluti. Þar af hafa 20 stærstu hluthafarnir þeger skráð sig fyrir 157,5 milljónum hlutum. Samhliða verði gefin út áskriftarréttindi fyrir allt að 57,2 milljónir hluta. Til samanburðar þá er fjöldi útistandandi hluta í félaginu 703,3 milljónir talsins.

Play hefur ráðið Arctica Finance til að hafa umsjón með útboðinu, útgáfu og töku hinna nýju hluta til viðskipta ásamt því að annast innheimtu og uppgjör viðskiptanna í tengslum við útboðið.