Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% í 2,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Yfir helmingur veltunnar var með hlutabréf Íslandsbanka en gengi bankans stóð í stað í 119,5 krónum á hlut.
Play hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 12,4% í 55 viðskiptum sem námu samtals 7 milljónum króna. Gengi Play stóð í 0,91 krónu á hlut við lokun Kauphallarinnar og hefur ekki verið hærra síðan um miðjan febrúar síðastliðinn.
Fjárfestahópur, sem leiddur er af Einari Erni Ólafssyni forstjóra Play og Elíasi Skúla Skúlasyni varaformanni stjórnar flugfélagsins, tilkynnti í gær um að hann stefni á að gera yfirtökutilboð í alla hluti flugfélagsins á genginu 1 krónu á hlut.
Hluthafar geta kosið um að fá greitt í formi reiðufjár eða hlutar í nýju félagi sem yrði fjármagnað með að lágmarki 20 milljóna dala fjárframlagi. Flugfélagið tilkynnti jafnframt um áformaðar breytingar á rekstrinum, þar á meðal að hætt verði flugi til Norður-Ameríku frá og með næsta október og að íslenska flugrekstrarleyfi félagsins verði skilað inn.
Gengi Icelandair hækkaði einnig um 2,8% í 156 milljóna króna veltu í dag og stendur nú í 1,10 krónum á hlut.
Alvotech lækkar um 5%
Fjarskiptafélögin Sýn og Síminn hækkuðu bæði um meira en 2% í dag. Greint var frá því í gærkvöldi að Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, hefði boðað starfsfólk fyrirtækisins á fund í sal 1 í Egilshöll klukkan 17 í dag. Í fundarboði til starfsmanna sagði Herdís að hugmyndin sé að stilla saman strengi fyrir þá stórsókn sem sé framundan.
Alvotech lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 5,3% í yfir 200 milljóna veltu. Gengi Alvotech stendur nú í 1.240 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra í meira en mánuð. Til samanburðar sótti Alvotech tæplega 10 milljarða króna á genginu 1.320,8 krónur í hlutafjárútboði í byrjun þessa mánaðar.