Flugfélagið Play hyggst fjölga sætum í hverri flugvél fyrir vetrartímabilið 2022-2023. Gera má því ráð fyrir að sætabil komi til með að minnka hjá Play á næstunni. Birgir Jónsson, forstjóri Play, lýsti því á uppgjörsfundi í morgun að þessi ákvörðun væri tekin samhliða stækkun á flota og leiðakerfi félagsins.
„Fólk sem hefur flogið með Play hefur tekið eftir því að við erum með nokkuð stórar flugvélar með ekki það mörgum sætum,“ sagði Birgir Jónsson á fundinum í morgun.
Hann gaf til kynna að flugvélar Play muni bjóða upp á sæti með þremur mismunandi sætabilum. Farþegar félagsins verði boðið að greiða aukalega fyrir meira sæti með meira fótapláss.
Í fjárfestakynningu félagsins kemur fram að sætum í A321 þotunum í flota félagsins verði sætum fjölgað úr 192 í 214 fyrir næsta vetur. Play áætlar að þetta muni lækka einingarkostnað um í A321 vélunum um 7% og hafa í för með sér 9% minni kolefnislosun á hvert sæti.
Sjá einnig: Nærri þriggja milljarða tap PLAY
Floti Play hefur hingað til samanstaðið af þremur Airbus A321 flugvélum en félagið tók við nýrri A320neo flugvél í byrjun mánaðarins og von á annarri af þeirri tegund í apríl. Í fjárfestakynningunni kemur fram að A320 vélarnar muni hafa 174-180 sæti. Þá á Play von á að fá eina A321neo LR þotu afhenta í maí og flotinn mun því samanstanda af sex vélum í sumar.
Þá mun Play fá fjórar vélar af gerðunum A320neo og A321neo afhentar næsta vetur og flugfélagið gerir því ráð fyrir að flotinn muni skipa tíu flugvélar vorið 2023.
Mynd tekin úr fjárfestakynningu Play sem var birt í morgun.