Flugfélagið Play hefur bætt Liverpool á Englandi og Genf í Sviss við áætlun sína fyrir veturinn 2022 til 2023. Play mun fljúga tvisvar í viku, mánudaga og föstudaga, til og frá John Lennon-flugvellinum í Liverpool frá nóvember 2022 fram að miðjum apríl árið 2023.
Genf verður nýjasti skíðaáfangastaður Play árið 2023 en flogið verður til Genfar-flugvallar tvisvar í viku frá 1. febrúar til 23. mars.
Í fréttatilkynningu segist flugfélagið ekki hafa farið varhluta af áhuga íslenskra stuðningsmanna á að geta flogið beint til Liverpool. Formaður Liverpool-samfélagsins, uppistandarinn Sólmundur Hólm, hefur undanfarið lagt hart að Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að hefja áætlunarferðir þangað. Sólmundur var mættur í höfuðstöðvar flugfélagsins í morgun til að þakka Birgi fyrir að láta beint flug til Liverpool verða að veruleika.
„Þetta hefur í för með sér aukin lífsgæði fyrir þegna Liverpool-samfélagsins sem eiga nú auðveldara með að ferðast á sinn helgasta stað. Ég veit að það var oft mjög stuðandi fyrir okkar viðkvæmustu þegna að þurfa að hafa viðkomu í borg erkifjendanna á leið sinni til Liverpool. Nú er það úr sögunni,“ segir Sólmundur Hólm sem gaf forstjóranum Liverpool-treyju í þakklætisskyni en treyjuna eignaðist Sóli í sinni fyrstu heimsókn til Liverpool árið 2013.
„Formennska mín í Liverpool-samfélaginu er fyrst og síðast ólaunað hugsjónastarf. Ég brenn fyrir að losa þegna samfélagsins undan óþarfa streitu og vera þeim andlegur leiðtogi á taugatrekkjandi tímum — í gleði og sorg. Þessi barátta mín fyrir beinu flugi Play til Liverpool er liður í því starfi. Ég viðurkenni að hafa eflaust reynt á þanþol Birgis Jónssonar og hans starfsfólks hjá Play með stöðugum tölvupóstsendingum og símhringingum til að fá þetta í gegn en um það snýst einmitt mitt hugsjónastarf,“ segir Sólmundur Hólm.
Birgir Jónsson, forstjóri Play:
„Ég gat ekki annað en á endanum hrifist með þessum mikla eldmóði Sóla. Það er ekkert skemmtilegra en að fá að verða samferða fólki sem brennur svo heitt fyrir einhverju líkt og hann. Í löngu og ítarlegu máli kom hann mér í skilning um hversu miklu máli Liverpool-liðið skiptir fyrir þúsundir Íslendinga og hvaða þýðingu það hefur að komast þangað með beinu flugi. Það er okkur sönn ánægja að geta komið til móts við þennan magnaða hóp. Svo skemmir ekki fyrir að með þessu opnast ný leið fyrir Breta til Íslands og áfram til Bandaríkjanna.“