Hlutabréfaverð Play hefur hækkað um 12,8% í 64 milljóna veltu á First North-markaðnum í dag. Gengi flugfélagsins stendur í 12,5 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð og er nú um 29% hærra en við lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn þegar það náði sínu lægsta dagslokagengi frá skráningu í 9,7 krónum.

Play birti farþegatölur fyrir febrúarmánuð í morgun en sætanýting flugfélagsins var 76,9% í mánuðinum. Félagið sagði jafnframt að meðalfargjald fyrir árið 2023 hafi hækkað um 19% frá síðasta ári „og mun hækka frekar eftir því sem nær dregur sumrinu“. Flugfélagið tilkynnti einnig um nýjan áfangastað í sumar.

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefur Úrvalsvísitalan fallið um 0,4% í 820 milljóna veltu. Mesta veltan er með hlutabréf Icelandair sem hafa lækkað um 0,7% í 200 milljóna viðskiptum. Gengi Icelandair stendur nú í 2,02 krónum á hlut.