Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,9% í 3,5 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um 850 milljónir króna var með hlutabréf Eimskips sem hækkuðu um 2,6% en flutningafélagið birti ársuppgjör í gær. Gengi Eimskips stendur nú í 595 krónum og hefur ekki verið hærra frá því í ágúst síðastliðnum.
Auk Eimskips hækkaði hlutabréfaverð Skeljar og Marels um meira en 1% í dag. Skel tilkynnti í morgun um uppfærðan kaupsamning um sölu á hlut félagsins í móðurfélagi færeyska félagsins Magns. Þá hækkaði Síminn, sem birti einnig uppgjör í gær, um 0,9% í 230 milljóna veltu.
Það var hins vegar flugfélagið Play, sem er skráð á First North-markaðnum, sem hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf flugfélagsins hækkuðu um 2,6% í 270 milljóna veltu. Gengi Play, sem birti ársuppgjör eftir lokun markaða í dag, stendur nú í 14,0 krónum og hefur ekki verið hærra frá 19. janúar síðastliðnum.
Vátryggingafélag Íslands, VÍS, tilkynnti í morgun um samrunaviðræður við Fossa fjárfestingarbanka. Hlutabréf VÍS féllu um 0,5% í 280 milljóna viðskiptum.