Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 3,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um 560 milljónir, var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 1,1%, mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi bankans stendur nú í 124,6 krónum á hlut.
Síminn hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,7% í 220 milljóna veltu. Gengi Símans stendur nú í 11,4 krónum á hlut, sem er um 6,5% hærra en í lok síðasta árs.
Það var hins vegar flugfélagið Play, sem er skráð á First North-markaðinn, sem hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 6,3%. Gengi Play stendur nú í 10,95 krónum á hlut og er um 12,9% hærra en við lokun markaðarins á fimmtudaginn síðasta þegar það náði sínu lægsta verði frá skráningu í 9,7 krónum.