Play hefur hafið undirbúning á hlutafjáraukningu þar sem flugfélagið ráðgerir að sækja allt að 3 til 4 milljarða króna í nýtt hlutafé. Jafnframt stefnir félagið á að flytja sig af First North-markaðnum yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar á fyrir helmingi ársins. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem félagið birti eftir lokun markaða.

„Það er mat félagsins að skynsamlegt sé að styrkja lausafjárstöðuna enn frekar, með hlutafjáraukningu, þannig að félagið sé í stakk búið til að grípa vaxtatækifæri og mæta ófyrirséðum atburðum,“ segir í afkomutilkynningu félagsins.

„Frá því að Play hóf fyrsta áætlunarflug sitt í júní 2021 hefur félagið vaxið hratt. Á vaxtaskeiði sínu hefur félagið glímt við ítrekuð ytri áföll, nú síðast eldgos á Reykjanesi í morgun.“

Birgir: Þyrftum að óbreyttu ekki aukið fjármagn

Félagið hefur ráðið þrjá ráðgjafa vegna fyrirhuguðu hlutafjáraukningarinnar; Arctica Finance sem umsjónaraðila ásamt Fossa fjárfestingarbanka og Greenhill (Mizuho) sem söluaðila.

Í tilkynningunni segir að ráðgjafar félagsins muni á næstu vikum hefja samtal við fjárfesta og mun útfærsla á fyrirkomulagi hlutafjáraukningarinnar m.a. taka mið af þeim samtölum. Hlutafjáraukningin og endanleg útfærsla sé háð samþykki hluthafa en aðalfundur félagsins fer fram 21. mars næstkomandi.

„Árið 2024 verður fyrsta árið í rekstri Play þar sem ekki verður bætt við nýjum flugvélum og að öllu óbreyttu myndi félagið ekki þurfa aukið fjármagn fyrir 2024,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

„Atburðir undanfarna vikna hafa sýnt okkur að staða flugfélaga getur breyst hratt og er það mat félagsins að styrkja þurfi lausafjárstöðuna. Því hefur félagið, ásamt ráðgjöfum sínum, hafið undirbúning við uppfærslu af First North yfir á Aðalmarkað sem er áætlað að muni eiga sér stað á fyrri helmingi ársins. Við teljum að með yfirfærslunni sé verið að auka aðgengi félagsins að fjármagni samhliða því að breikka hóp hluthafa.“

Handbært fé Play í árslok 2023 var 21,6 milljónir dala, eða sem nemur tæplega 3 milljörðum króna.

Sögðust í september ekki ætla að sækja nýtt hlutafé

Í kauphallartilkynningu Play í tengslum við upplýsingafund fyrir fjárfesta í lok september sagðist félagið ekki ætla að sækja aukið hlutafé við þáverandi markaðsaðstæður. Flugfélagið taldi lausafjárstöðu sína góða og að sjóðstreymi þess væri í jafnvægi þegar tekið hefur verið tillit til fjárfestinga í stækkun flotans.

Play, líkt og Icelandair, fann fyrir neikvæðum áhrifum á bókanir vegna jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesskaganum og fjölmiðlaumfjöllunar ytra um þessa atburði. Vegna þessa ákvað Play að kippa afkomuspá sinni fyrir árið 2023 úr sambandi í lok nóvember.

Play jók síðast hlutafé í nóvember 2022 þegar flugfélagið safnaði bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu að andvirði 2,3 milljarða króna með samningum við tuttugu stærstu hluthafa þess.

Play var skráð á First North-markaðinn í júlí 2021 að undangengnu almennu hlutafjárútboði þar sem félagið sótti 4,3 milljarða króna.

Skömmu áður vorið 2021 hafði Play tryggt sér tæplega 7 milljarða króna í nýtt hlutafé. Meðal þátttakenda í því útboði voru fjárfestingarfélögin Stoðir, Fiskisund og Brimgarðar og lífeyrissjóðirnir Birta og Lífsverk.

Hlutabréfaverð Play aldrei verið lægra

Gengi hlutabréfa Play lækkaði um tæp 3% í 38 milljóna króna veltu í viðskiptum dagsins. Gengið stóð í 6,65 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og hefur aldrei verið lægra frá skráningu á markað.

Til samanburðar var útboðsgengi fyrir fagfjárfesta 20 krónur í frumútboði félagsins og 14,6 krónur í hlutafjáraukningu félagsins í árslok 2022.