Flugfélagið Play hefur fellt afkomuspá sína fyrir árið 2024 úr gildi. Vinna við árshlutauppgjör og uppfærða afkomuáætlun gefi vísbendingar um að rekstrarafkoma á árinu 2024 verði ekki í kringum núll eins og áður hafði verið gefið út, heldur neikvæð.

„Erfitt rekstrarumhverfi flugfélaga um þessar mundir gefur Play tilefni til að veita ekki frekari leiðsögn um rekstrarþætti félagsins fram á við,“ segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar.

Flugfélagið Play hefur fellt afkomuspá sína fyrir árið 2024 úr gildi. Vinna við árshlutauppgjör og uppfærða afkomuáætlun gefi vísbendingar um að rekstrarafkoma á árinu 2024 verði ekki í kringum núll eins og áður hafði verið gefið út, heldur neikvæð.

„Erfitt rekstrarumhverfi flugfélaga um þessar mundir gefur Play tilefni til að veita ekki frekari leiðsögn um rekstrarþætti félagsins fram á við,“ segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar.

Flugfélagið áréttar að það telji enn stefna í að rekstrarafkoman verði „mun betri“ en á síðasta ári.

Play mun birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn, 25. júlí.

Icelandair tók afkomuspá sína úr gildi í maí

Icelandair tók afkomuspá sína fyrir árið 2024 úr gildi í lok maí síðastliðnum og bar fyrir sig óvissu á mörkuðum, m.a. vegna endurtekinna eldgosa á Reykjanesi og minni eftirspurnar eftir flugferðum til Íslands. Uppgjör Icelandair á öðrum fjórðungi, sem var birt á miðvikudaginn síðasta, leiddi ljós að hagnaður Icelandair lækkaði úr 13,6 milljónum dala í 622 þúsund dali milli ára.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, sagði í samtali við Innherja í lok maí að flugfélagið teldi ekki tilefni á þeim tímapunkti til að breyta afkomuspá sinni sem gerði ráð fyrir að EBIT-afkoma yrði við núll og að sjóðstreymi myndi batna á milli ára.

Hann sagði Play hafa mætt krefjandi rekstrarumhverfi með ýmsum hætti, m.a. með því að hnika til leiðakerfi sínu. Einnig nefndi hann að olíuverð hafði lækkað frá áramótum.

Töluvert hefur verið rætt um að lakari horfur í ferðaþjónustu. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka lýsti því í morgun að hann telji nú líklegra að erlendum ferðamönnum muni fækka milli ára fremur en að þeim fjölgi. Flugfélög víðar finna einnig fyrir krefjandi aðstæðum í rekstrarumhverfi sínu.

Hlutabréfaverð Ryanair féll um 17% í dag eftir birtingu uppgjörs sem sýndi að hagnaður félagsins á tímabilinu apríl-júní lækkaði um 46% milli ára. Jafnframt varaði forstjórinn Michael O‘Leary við að flugfargjöld félagsins hefðu yrðu merkjanlega lægri í sumar heldur en á sama tíma í fyrra, m.a. vegna minni eftirspurnar.