Play hefur tilkynnt um að afkomuspá félagsins fyrir árið 2023, sem birt var í september og aftur í þriðja ársfjórðungs uppgjöri félagsins í október, eigi ekki lengur við vegna áhrifa jarðhræringa á bókunarstöðu félagsins. Rúm vika er síðan Icelandair tilkynnti um að afkomuspá sín hefði verið tekin úr gildi vegna sömu ástæðna.

Jarðhræringar og umfjöllun um mögulegt eldgos á Reykjanesskaga hefur dregið úr eftirspurn eftir ferðum til Íslands, sem bókaðar eru með skömmum fyrirvara, að sögn flugfélagsins. Play segir þetta muni hafa áhrif á afkomu félagsins.

„Lausafjárstaða félagsins verður ívið lægri en búist var við en verður engu að síður heilbrigð,“ segir í tilkynningu Play.

Lausafjárstaða Play stóð í tæplega 39,2 milljónum dala, eða um 5,4 milljörðum króna, í lok september síðastliðnum.

Play segist hafa ráðist í ýmsar aðgerðir til að takmarka framangreind neikvæð áhrif á rekstur félagsins og lausafjárstöðu og aðlagast þessum breyttu aðstæðum. Meðal aðgerða eru breytingar á flugáætlun og framboði til að mæta minni eftirspurn á komandi vikum og mánuðum.