Play Europe, dótturfélag Fly Play hf., hefur fengið afhent flugrekstrarleyfi (AOC) frá flugmálayfirvöldum á Möltu. Flugrekstrarleyfið var afhent við hátíðlega athöfn á Möltu í morgun, að því er segir í tilkynningu flugfélagsins til Kauphallarinnar.
Play Europe var stofnað sem liður í endurskipulagningu Play sem kynnt var í október síðastliðnum. Þá tilkynnti félagið að það myndi sinna verkefnum í Evrópu fyrir aðra flugrekendur í gegnum dótturfélag sitt Play Europe á Möltu og á sama tíma myndi Fly Play hf. (íslenska félagið) leggja ríkari áherslu á bein flug (e. point-to-point) til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi sem hingað til hafa skilað félaginu góðri arðsemi.
Fly Play hf. er með tíu þotur í flota sínum. Play hefur þegar náð samkomulagi við flugrekanda í Austur-Evrópu og liður í því samkomulagi er leiga þriggja véla á nýja maltneska flugrekstrarleyfinu. Umræddar vélar munu einungis sinna flugstarfsemi utan Íslands og ekki undir vörumerkjum Play.
„Með öðrum orðum verður ekki flogið á þeim til og frá Íslandi heldur frá borgum á meginlandi Evrópu. Flugmenn og yfirflugliðar verða starfsmenn Play Europe og verða ráðnir og staðsettir í því landi sem leigutakinn flýgur frá,“ segir í tilkynningunni.
„Fly Play hf. verður áfram íslenskt lágfargjaldaflugélag með meirihluta af sínum vélum í rekstri frá Keflavík.“
Fyrsta flugvélin sem skráð er á maltneska flugrekstrarleyfið er Airbus A321-NEO, framleidd árið 2018, með skráningarnúmerið 9H-PEA.
„Þetta er mikilvægt skref fyrir okkur. Þessi leiguverkefni munu skila Play arðsemi í samræmi við það sem félagið hefur áður gefið til kynna og gerir rekstur félagsins mun fyrirsjáanlegri og stöðugri og afkomu félagsins jákvæða. Viðtaka maltneska flugrekstrarleyfisins í dag, töluvert á undan áætlun, er afrakstur þrotlausrar vinnu sem samstarfsfólk mitt hefur unnið af hendi af einstakri fagmennsku undanfarna mánuði og við erum því afar stolt á þessum tímamótum,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.