Hlutabréfaverð Play hefur fallið um 10,8% í fyrstu viðskiptum frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Um er að ræða tíu viðskipti upp á samtals um eina milljón króna.
Gengi Play stendur í 0,58 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð en til samanburðar fór dagslokagengi flugfélagsins lægst í 0,64 krónur þann 12. mars síðastliðinn. Gengi Play hefur nú fallið um 43% frá áramótum og er nú 87% undir 4,5 króna útgáfuverðinu í 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningunni sem félagið lauk vorið 2024.
Play upplýsti eftir lokun markaða í gær að félagið hefði tapað 3,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Flugfélagið sagði horfur í rekstrinum þó jákvæðar og benti á að lausafjárstaðan væri sterkari en á sama tíma í fyrra.
Fimm félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar birtu uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Auk Play birtu Skagi, Festi, Icelandair og Síminn uppgjör.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur fallið um 2,4% í tólf milljóna króna veltu og stendur nú í 1,01 krónu á hlut. Icelandair tapaði 6,1 milljarði króna á fyrsta fjórðungi en afkoma félagsins batnaði frá sama tímabili í fyrra og stjórnendur sögðu afkomuna í takti við sínar væntingar. Flugfélagið sagðist hins vegar ekki treysta sér til að staðfesta afkomuspá sína fyrir árið í heild á þessum tímapunkti.
Hlutabréfaverð Skaga, móðurfélags VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa, hefur fallið um 4,7% í 90 milljóna króna veltu frá opnun Kauphallarinnar. Skagi tapaði tæplega 1,4 milljörðum króna á fyrsta fjórðung, sem skýrist af stórum hlut af neikvæðum fjárfestingatekjum vegna lækkunar skráðra hlutabréfa.
Hlutabréf Símans og Festi hafa hækkað um innan við eitt prósent í morgun. Hagnaður Festi samstæðunnar jókst milli ára. 400 milljóna króna sekt í „enska bolta málinu“ litaði afkomu Símans en félagið tapaði 188 milljónum á fyrsta fjórðungi. Tekjur Símans jukust um 9,1% milli ára.