Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um 5,4% í 44 milljóna króna viðskiptum í dag og stendur í 13,25 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Flugfélagið birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær en félagið skilaði tæplega 6,6 milljarða króna tapi í fyrra.
Hlutabréf Icelandair hafa einnig lækkað um 2,7% í 33 milljón veltu í dag. Gengi Icelandair stendur nú 1,99 krónum á hlut. Verkfall Eflingar hjá bílstjórum við olíudreifingu, sem hófst í gær, gæti haft áhrif á gengi hlutabréfa flugfélaganna á næstu dögum.
Stór viðskipti með Icelandair
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hafa hækkað um 1,6% í 1,7 milljarða veltu það sem af er degi og stendur nú í 128 krónum. Í morgun fóru í gegn 1,5 milljarða króna viðskipti með 0,6% hlut í bankanum á genginu 125 krónur.
Hlutabréf Sýnar, sem birti ársuppgjör í gær, hafa hækkað um 1,7% í dag, mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi Sýnar stendur nú í 60,5 krónum.