OMXI 15 vísitalan hækkaði um 1,31% í dag og stendur nú í 2.817,59 stigum. Vísitalan hefur lækkað um tæp 8% síðastliðinn mánuð og tæp 3% frá áramótum.
Gengi bréfa Play hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 7,30% í sex milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 0,74 krónum á hlut.
Flugfélagið birti farþegatölur vegna febrúarmánaðar eftir lokun markaða í dag.
Kom þar m.a. fram að framboð dróst saman um 13,8% milli ára vegna ákvörðunar félagsins að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðarbundnum sveiflum.
Hlutabréfaverð Símans hækkaði þá um 5,5% í 655 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins er í hæstu hæðum og stendur í 14,35 krónum á hlut.
Mesta veltan var með bréf Arion banka. Hlutabréfaverð bankans hækkaði um meira en 2% í 700 milljóna króna veltu. Gengi bréfa bankans hefur lækkað um 1,2% frá áramótum.
Gengi bréfa þriggja félaga lækkaði á aðalmarkaði í dag. Eimskip um 0,7% í 80 milljóna viðskiptum, ISI um tæpt prósentustig í óverulegum viðskiptum og Skel fjárfestingafélag um tæplega 7% í 38 milljóna króna viðskiptum.
Lækkun á hlutabréfaverði Skel má að langmestu leyti rekja til arðgreiðslu upp á 1,6 krónur á hlut en í dag er arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf bankans án réttar til arðs.
Aðalfundur Skel var haldinn í gær. Þar samþykkti stjórn félagsins að greiða arð til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 að fjárhæð 6 milljarðar króna.
Arðurinn er greiddur út í tveimur skrefum, þrír milljarðar verða greiddir út þann 20. mars og aðrir þrír milljarðar þann 20. október.