Flugfélagið Play hefur sagt upp 27 flugfreyjum og -þjónum. Upplýsingafulltrúi Play, Birgir Olgeirsson, staðfestir í samtali við RÚV að hluti starfsfólks hafi fengið tilkynningu um uppsögn í dag.
Forseti Íslenska flugstéttafélagsins, Jóhann Óskar Borgþórsson, segir að hjá Play starfi 250 manns sem flugfreyjur og -þjónar og uppsögnin samsvari því 10% af flugþjónum flugfélagsins. Uppsagnirnar hafi verið yfirvofandi vegna breytinga á viðskiptalíkani Play.
Birgir segir að í ljósi breyttra áherslna hjá flugfélaginu og minnkaðs umfangs starfseminnar á Íslandi þurfi að fækka starfsfólki. Stærstur hluti fækkunar starfsfólks fari fram með náttúrulegum hætti en að félagið hafi þurft að grípa til einhverra uppsagna.
Nýtt viðskiptalíkan félagsins felur í sér að fjórar flugvélar muni sinna flugi frá Íslandi, þar sem áhersla verður á framboð til sólarlandastaða og borga sem eru vinsælar meðal Íslendinga. Hinar sex vélarnar verði hins vegar leigðar í arðbær verkefni til annarra flugrekenda. Play hyggst fljúga undir maltnesku flugrekstrarleyfi og skila inn íslenska flugrekstrarleyfinu.