Flugfélagið Play tapaði 45,5 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 6,6 milljörðum króna á gengi dagsins, á síðasta ári. Play áætlar að tjón vegna ófærðar á Reykjanesbrautinni í desember hafi numið 2,2 milljónum dala eða yfir 300 milljónum króna. Play birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Tekjur félagsins námu tæplega 140 milljónum dala, eða um 20 milljörðum króna. Til samanburðar voru tekjur Play um 16 milljónir dala árið 2021, en starfsemi félagsins hófst í lok júní það ár.
„Fyrirtækið var enn rekið með tapi árið 2022 sem var viðbúið í ljósi þess að við erum sprotafyrirtæki í miklum vexti að bæta við flugvélum, áfangastöðum og starfsfólki auk þess sem við höfum verið að kynna nýtt vörumerki á markaði sem kostar bæði tíma og fjármuni,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í afkomutilkynningu.
„Við sjáum hins vegar skýra og jákvæða þróun sem staðfestir að við erum á réttri leið og munum fljótlega sjá hagnað af fjárfestingunum eftir því sem við verðum sterkari á markaði. Okkur hefur tekist mjög vel að halda kostnaði í lágmarki og það er frábært að sjá tekjurnar byrja að aukast sem er hárrétt uppskrift að árangri.“
Birgir lýsir því einnig að bókunarstaða flugfélagsins sé sterk og að einingartekjur Play séu að aukast. Þá sé jákvæð þróun í hliðartekjum og vel hafi gegnið að hefja sölu á vöruflutningum.
Handbært fé Play um 5,2 milljarðar
Eignir Play voru bókfærðar á 331,5 milljónir dala, eða um 48 milljarðar króna, í lok síðasta árs og eigið fé var um 38,5 milljónir dala, eða um 5,5 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall Play stóð því í 11,6% við árslok. Félagið hefur engar vaxtaberandi skuldir.
Handbært fé Play nam 36,2 milljónum dala, eða sem nemur 5,2 milljörðum króna, í árslok 2022. Þar af voru 6,6 milljónir dala í bundnum bankainnstæðum.