Play tapaði 66 milljónum dala, eða sem nemur 9,2 milljörðum króna, árið 2024, samanborið við 35 milljóna dala tap árið áður. Flugfélagið tapaði 39,8 milljónum dala, eða um 5,6 milljörðum króna, á fjórða ársfjórðungi samanborið við 17,2 milljóna dala tap á sama tíma árið áður.
Lausafjárstaða Play við lok árs 2024 var 23,6 milljónir dala, eða um 3,3 milljarðar króna, borið saman við 21,6 milljónir dala í árslok 2023. Eigið fé félagsins var neikvætt um 33,1 milljón dala, eða um 4,6 milljarða króna í árslok 2024.
„Lausafjárstaðan hefur styrkst frá sama tíma á síðasta ári og miklar framfarir orðið í rekstrarhorfum Play. Þó er ekki hægt að útiloka að markaðsaðstæður breytist og að til álita komi að auka hlutafé,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, í uppgjörstilkynningu flugfélagsins.
Bent er á að heildartap félagsins á árinu 2024 var mun hærra en rekstrartapið. Þetta se vegna afskriftar á skattainneign upp á 24,1 milljónir dala „sem er einungis bókhaldslegs eðlis og hefur engin áhrif á lausafjárstöðu félagsins“. Jafnframt segir að þetta sé „varfærin nálgun" af hálfu Play“.
EBIT-afkoma félagsins var neikvæð um 30,5 milljónir dala á árinu 2024, eða sem nemur 4,3 milljörðum króna.
Segja skýr merki um að nýtt líkan sé að skila árangri
Tekjur Play jukust um 4% á milli ára og voru 292 milljónir dala árið 2024, eða hátt í 41 milljarður króna.
Í uppgjörstilkynningu Play segir flugfélagið skýr merki í uppgjöri fjórða ársfjórðungs um að nýtt viðskiptalíkan sem félagið tilkynnti um í haust sé farið að skila bættum árangri. Umrædd breyting felur í sér að leggur nú aukna áherslu á þjónustu til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi en dró aftur á móti töluvert úr umsvifum tengiflugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu.
Fram kemur að farþegatekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) á fjórða ársfjórðungi jukust um 17% á milli ára, vegna hærra meðalverðs og betri sætanýtingar.
EBIT-afkoma félagsins á fjórða ársfjórðungi batnaði um 4,7 milljónir dala á milli ára og var neikvæð um 15,3 milljónir dala. Bætt EBIT-afkoma á fjórðungnum er rakin til hærri meðaltekna, betri sætanýtingar og aðhaldsaðgerða.
Leigja út þrjár vélar
Greint er frá því að samkomulag sé í höfn um leigu þriggja véla frá og með næstkomandi vori til ársloka 2027. Félagið segir þessa leigusamninga tryggja mikinn fyrirsjáanleika í rekstrinum.
„Verkefnið mun skila Play arðsemi í samræmi við það sem félagið hefur áður gefið til kynna og færir félaginu afar stöðugan og jákvæðan rekstur af þessum hluta starfseminnar.“
Stefna að hagræðingaaðgerðum
Play segir að á árinu 2025 verði leitast við að draga úr kostnaði og þegar hefur verið gripið til aðgerða sem stefnt er að skili 15 – 20% hagræðingu í yfirbyggingu, m.a. með minna leiðakerfi og færri tækninýjungum.
Þá muni Play hafa undir höndum betri samninga við birgja og mun starfsemi í Vilníus einnig lækka kostnað.