Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs segir hátt eldsneytisverð helstu áskorun Play á þessu ári, enda hafi eldsneyti staðið undir tæplega þriðjungi rekstrarkostnaðar félagsins á síðasta ári. Á hinn bóginn sé þó reiknað með mikilli eftirspurn eftir flugferðum milli Bandaríkjanna og Evrópu næsta sumar, sérstaklega í ljósi sterkrar stöðu Bandaríkjadals gagnvart evru og öðrum helstu gjaldmiðlum Evrópu.

Hann segir Play þurfa að ganga úr skugga um að lenda ekki í sömu hremmingum og norska lággjaldaflugfélagið Flyr, sem lenti í lausafjárvanda og sigldi í gjaldþrot í lok janúar eftir að hafa hafið starfsemi sumarið 2021.

Hann bendir á að Play hafi tapað 0,016 dölum á á hverjum sætiskílómetra (ASK) í fyrra, sem hafi leitt til þess að félagið hafi brennt upp 31,6 milljónum dala, eða 4,5 milljörðum króna, frá því í byrjun síðasta árs.

Í fjárfestakynningu Play sem gefin var út skömmu eftir útgáfu uppgjörs síðasta árs kemur fram að árið 2023 hafi byrjað vel og sölumet verið slegið í janúar. Þá hafi tekjur frá fraktflutningum aukist verulega, úr 122 þúsund dölum á þriðja ársfjórðungi í 692 þúsund dali á fjórða ársfjórðungi. Félagið reiknar með að 1,5-1,7 milljónir farþega fljúgi með Play á þessu ári og að það muni skila rekstrarhagnaði.

Nánar er fjallað um málefni Play í Viðskiptablaðinu.