Play skilaði 66 milljóna dala tapi á liðnu ári, sem nemur ríflega 9,1 milljarði króna. Til samanburðar tapaði félagið um 35 milljónum dala árið áður, sem nemur 4,8 milljörðum króna.

Rúmlega 1,6 milljónir farþega flugu með félaginu á árinu 2024 og nemur tap félagsins af hverjum farþega 5.525 krónum.

Heildartap Play á árinu var tvöfalt hærra en rekstrartapið (EBIT), m.a. vegna niðurfærslu á yfirfæranlegu skattalegu tapi upp á 24,1 milljón dala. Þannig nam rekstrartap Play af hverjum farþega 2.556 krónum.

Tekjuvöxtur félagsins hefur þó verið mikill í takt við aukin umsvif. Tekjur Play á síðasta ári námu 292 milljónum dala, sem nemur 40,3 milljörðum króna. Tekjurnar jukust um 3,7% milli ára - en hafa meira en tvöfaldast frá fyrsta heila starfsári flugfélagsins árið 2022.

„Helsta áskorun Play er að einingakostnaður (CASK) er enn þá talsvert meiri en einingatekjur (RASK). Þetta verður að breytast á árinu 2025 til að félagið skili hagnaði eða a.m.k. minnki tapið milli ára,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði.

Einingatekjur Play lækkuðu á milli ára, voru 4,9 Bandaríkjasent, borið saman við 5 sent árið 2023. Einingakostnaður á árinu 2024 var 5,6 Bandaríkjasent, og stóð í stað frá fyrra ári. Þá jókst einingakostnaður án eldsneytis milli ára, var 4 sent samanborið við 3,8 sent árið á undan.

Play þurfi fljótlega aukið fjármagn

Í ársreikningi kemur fram að búist sé við svipaðri fjárhagsniðurstöðu á fyrsta ársfjórðungi samanborið við í fyrra þegar félagið tapaði 21,7 milljónum dala.

Handbært og bundið fé hjá Play nam 23,6 milljónum dala í lok árs 2024 samanborið við 21,6 milljónir dala í lok árs 2023. Þar af nam handbært fé 14,3 milljónum dala, sem nemur tæpum tveimur milljörðum króna.

„Play mun þurfa að afla aukins fjármagns fljótlega,“ útskýrir Hans, en síðast jók Play hlutafé sitt um 4,6 milljarða króna í apríl sl. í aðdraganda skráningar félagsins á aðalmarkað.

„En staðan fer líka eftir sölu flugmiða fyrir páskana og sumarið nú á fyrsta ársfjórðungi og hversu miklu færsluhirðar halda eftir af sölu farmiða sem greiddir eru með greiðslukortum,“ bætir Hans við.

Nauðsynlegt að ná stjórn á lausafjárstöðunni

Eigið fé Play í lok árs 2024 var neikvætt um 33,1 milljón dala, en þar af er 24,1 milljón vegna niðurfærslu á yfirfæranlegu skattalegu tapi.

Í fréttatilkynningu Play um ársreikninginn er rakið að algengt sé að flugfélög séu með neikvætt eigið fé, t.d. hafi Wizzair, American Airlines, Delta og Air Canada öll á síðustu árum verið með neikvætt eigið fé en engu að síður staðið undir stöðugum flugrekstri. Hans tekur undir það en leggur áherslu á mikilvægi þess fyrir Play að endurheimta sterka lausafjárstöðu.

„Það er auðvitað ekki sérlega hagstætt fyrir flugfélag að vera með neikvætt eigið fé yfir tíma og þessi staða Play endurspeglast að mínu mati í neikvæðri þróun hlutabréfaverðs félagsins.

Enn og aftur vil ég leggja áherslu á að það er nauðsynlegt fyrir Play að viðhalda ávallt sterkri lausafjárstöðu. Ef markaðurinn fer að hafa áhyggjur af lausafjárstöðu Play gæti það í versta falli leitt til þess að félagið þurfi t.d. að greiða fyrir eldsneyti með reiðufé eða kreditkorti og greiða fyrir fram fyrir flugvallargjöld. Vonandi tekst Play að ná stjórn á lausafjárstöðunni og koma rekstrinum í eðlilegt horf þegar fram í sækir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.