Icelandair og Play birtu uppgjör annars ársfjórðungs nú á dögunum. Icelandair skilaði 622 þúsund dala hagnaði á fjórðungnum, eða sem nemur 86 milljónum króna. Play skilaði 8,1 millljón dala tapi, sem nemur ríflega 1,1 milljarði króna, á öðrum ársfjórðungi.
Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, bendir á að nú þegar eftirspurn eftir flugferðum hafi dregist saman meðal hefðbundinna ferðamanna, m.a. vegna verðbólgu og hærri vaxta, bregðist flugfélög við með því að lækka fargjöld. Í því ástandi sé erfitt fyrir félögin að vera arðbær, sérstaklega þegar rekstrarkostnaður er á uppleið.
„Mikilvægasti þátturinn í árangri lággjaldaflugfélaga er að vera ávallt með lægsta rekstrarkostnaðinn á markaðnum. Ef það mistekst, þá mun lággjaldaflugfélagið eiga í erfiðleikum með að skila hagnaði þegar markaðsaðstæður eru krefjandi, líkt og við höfum séð á árinu 2024.“
Hans segir að þó allt stefni í taprekstur Play á árinu sjái hann enga þörf fyrir félagið að afla viðbótarfjármagns á árinu.
„Ég efast um að Play muni skila hagnaði fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi, en það er möguleiki að félagið komist eins nálægt núllinu og mögulegt er. Á fjórða ársfjórðungi byrjar vetrartímabilið og eftirspurn minnkar á sama tíma og kostnaður heldur áfram að aukast. Því er lítill möguleiki á hagnaði á fjórða ársfjórðungi og líklegt að Play skili tapi á fjórðungnum. Það stefnir því í tap hjá Play á árinu 2024, en ég sé þó enga þörf fyrir félagið að afla sér aukins fjármagns á árinu.“
Fleiri stoðir undir rekstri Icelandair
Icelandair hefur einnig orðið fyrir barðinu á offramboði, minnkandi eftirspurn, þrýstingi á fargjöld og hækkandi rekstrarkostnaði, sem leitt hefur til taps á fyrstu sex mánuðum ársins, að sögn Hans.
„En viðskiptamódel Icelandair byggir á fleiri stoðum en Play. Það sinnir fraktflutningum og leigir út flugvélar og áhafnir. Leigustarfsemin hefur skilað hagnaði á meðan fraktflutningastarfsemin var nálægt núllinu á fyrri hluta árs.
Icelandair býður einnig upp á Saga Class, sem er hágæða vara. Sá hluti markaðarins, þar sem farþegar eru reiðubúnir að greiða mun hærri fargjöld en farþegar sem ferðast með almennu farrými, er í vexti. Slík fargjöld eru að meðaltali fimm sinnum dýrari en almenn fargjöld, sem veitir Icelandair „yfirhöndina” gagnvart Play í núverandi markaðsaðstæðum yfir Norður-Atlantshafið.“
Leiðrétting: Í grafi með fréttinni í blaðinu var því haldið fram að handbært og bundið fé Icelandair hefði numið 291,2 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi. Sú upphæð telur hins vegar einungis handbært fé, en bundið fé Icelandair nam 37 milljónum dala í lok árs 2023. Þá námu markaðsverðbréf félagsins 122 milljónum dala á fjórðungnum. Þetta hefur nú verið leiðrétt.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.