Play tilkynnti í morgun um fjóra nýja áfangastaði. Það eru dönsku borgirnar Álaborg, Árósa og Billund og þýska borgin Düsseldorf. Í tilkynningu Play segir að nýju áfangastaðirnir falli allir vel að tengiflugsleiðakerfi félagins til áfangastaða í Norður-Ameríku.

Fyrsta ferð Play til Düsseldorf verður farin 8. júní næstkomandi en flogið verður þrisvar í viku. Um er að ræða þriðja áfangastað Play í Þýskalandi en flugfélagið flýgur þegar til Berlínar og Hamborgar.

Jómfrúarferð Play til Álaborgar verður farin þann 10. júní næstkomandi. Fyrsta áætlunarflug Play til Árósa er 12. júní. Þá mun flugfélagið hefja flug til Billund í Danmörku þann 15. júní. Flogið verður tvisvar í viku til dönsku borganna þriggja.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Okkur hefur lengi dreymt um að gera betur við þann mikla fjölda Íslendinga sem býr í Danmörku og með þremur nýjum áfangastöðum í landinu teljum við að þjónustan verði stórbætt. Það er mikið gleðiefni. Með þessari viðbót við leiðakerfið verður Play með sex áfangastaði í Skandinavíu næsta sumar, tvo í Svíþjóð og fjóra í Danmörku. Þessir þrír nýju áfangastaðir í Danmörku eru virkilega spennandi - ekki aðeins er ég sannfærður um að Íslendingar muni nýta sér þá í miklum mæli, heldur einnig þeir sem vilja komast frá Vestur-Danmörku og til Bandaríkjanna á þægilegan og ódýran hátt.

Um leið hefur sjaldan verið ódýrara fyrir Íslendinga að skreppa til Danmerkur að njóta danska sumarsins eða heimsækja ættingja - helmingur Íslendinga í Danmörku býr í vesturhluta landsins. Þetta eru einfaldlega frábærar fréttir fyrir stóran hóp fólks.”