Stjórn Flugfélagsins Play hefur safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu að andvirði 2,3 milljarða króna með samningum við tuttugu stærstu hluthafana. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Áskriftirnar eru fyrir 157.534.247 hlutum að nafnverði, sem samsvarar um 18% hlut í félaginu.
„Markmið með söfnun áskriftarloforðanna er að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess.“
Handbært fé Play í lok september var 29,6 milljónir dala, eða um 4,4 milljarðar króna, með bundnu fé. Eignir Play námu 327,6 milljónum dala og skuldir námu 287,9 milljónum dala. Eiginfjárhlutfall var 12,1%.
Play birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung fyrr í dag. Flugfélagið tapaði 2,9 milljónum dala á fjórðungnum eða sem nemur 430 milljónum króna. Play skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn en sagði þó ljóst að áætlanir um rekstrarhagnað á seinni hluta ársins muni ekki standast. Félagið færði einnig niður spá um tekjur yfir árið.
Útgáfugengið 14,6 krónur
Útgáfugengið á hvern hlut 14,6 krónur. Til samanburðar var útboðsgengi í frumútboði flugfélagsins 18 krónur á hlut fyrir tilboð undir 20 milljónum og 20 krónur á hlut fyrir hærri tilboð. Hlutabréfaverð Play, sem er skráð á First North-markaðinn, stóð í 15,2 krónum við lokun Kauphallarinnar.
Samhliða útgáfu hlutanna verða gefin út áskriftarréttindi að hlutum sem nema 25% af framangreindri hlutafjárútgáfu. Áskriftarverðið skv. áskriftarréttindunum mun nema sama verði og í hlutafjárútgáfunni auk vaxta frá útgáfudegi sem nema 7-daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands. Áskriftarréttindin verða nýtanleg í 10 daga eftir birtingu ársuppgjörs 2023.
Stjórn mun boða til hluthafafundar í samræmi við samþykktir félagsins, þar sem lögð verður fram tillaga um hlutafjárhækkun, fráfall forgangsréttar núverandi hluthafa og veitingu heimildar til stjórnar til að efna skuldbindingar félagsins.
Birgir Jónsson, forstjóri Play:
„Fjárhagstaða Play var sterk í gær en hún er enn sterkari í dag. Þessi hlutafjáraukning frá tuttugu stærstu hluthöfum Play er mikið fagnaðarefni og fyrst og fremst til marks um það mikla traust sem stórir hluthafar hafa á rekstrinum og því sem við erum að gera. Tækifæri Play á næstu misserum eru augljós og þetta er ekki síst vitnisburður um það.
Flugtak Play hefur heppnast mjög vel þótt segjast verði að ytra markaðsumhverfi hafi reynst þyngra í vöfum en við höfðum vonast til. Það eru mjög jákvæð teikn á lofti í rekstrinum og við sjáum fram á jákvæða rekstrarafkomu á næsta ári eftir því sem tekjustofnar okkar verða traustari og við komum okkur enn betur fyrir á mörkuðum okkar. Þessi hlutafjáraukning er mjög hvetjandi fyrir okkur og við horfum enn bjartari augum til framtíðar.“
20 stærstu hluthafar Play í lok október
í % |
8,6% |
8,5% |
6,4% |
4,3% |
4,0% |
3,6% |
3,6% |
2,7% |
2,7% |
2,5% |
2,4% |
2,3% |
2,3% |
2,2% |
2,1% |
2,0% |
1,9% |
1,6% |
1,5% |
1,3% |