Flugfélagið Play hefur verið nokkuð milli tannanna á fólki allt frá því að félagið tilkynnti í byrjun mánaðar að það hefði safnað nýju hlutafé að andvirði 2,3 milljarða króna með samningum við tuttugu stærstu hluthafa sína. Félagið sagði markmið með söfnun áskriftarloforðanna að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess. Til viðbótar tilkynnti Play nokkrum dögum síðar að það hygðist efna til hlutafjárútboðs fyrir aðra en þá tuttugu stærstu. Náist full áskrift fær félagið þar um einn milljarð króna til viðbótar. Samkvæmt uppgjöri Play fyrir fyrstu níu mánuði ársins brenndi félagið einmitt upp 3,3 milljörðum króna af lausafé sínu á tímabilinu, sem er rúmur helmingur lausafjár sem það átti í byrjun árs.

Segja má að þessar hlutafjáraukningar hafi komið sem þruma úr heiðskíru lofti, enda hefur Birgir Jónsson, forstjóri Play, á undanförnum mánuðum oftar en einu sinni tjáð fjölmiðlum að félagið þyrfti ekki að sækja nýtt hlutafé. Í samtali við Viðskiptablaðið í byrjun maí sagði hann að félagið teldi ekki þörf á að sækja hlutafé. Í lok ágúst ítrekaði svo Birgir við Morgunblaðið að ekki væru neinar áætlanir um að sækja hlutafé. Lausafjárstaða félagsins, sem þá var 39 milljónir dala, væri lágpunktur inni í áætlunum þess.

Sama dag og Play birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung var þó tilkynnt um ofangreinda hlutafjáraukningu. Í uppgjörinu kom fram að í lok september hefði handbært fé Play verið 29,6 milljónir dala með bundnu fé. Play skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn en sagði þó ljóst að áætlanir um rekstrarhagnað á seinni hluta ársins myndu ekki standast. Félagið færði einnig niður spá um tekjur yfir árið.

Forstjórarnir í hár saman

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í viðtali við Túrista að uppgjörið hefði komið stjórnendum Icelandair á óvart enda hefði það ekki verið í samræmi við upplýsingagjöf félagsins til Kauphallar og í fjölmiðlum. „Við áttum von á mun sterkara uppgjöri,“ sagði hann við Túrista.

„Þá voru stjórnendur Play jákvæðir varðandi næstu vikur og mánuði og tveir af þremur mánuðum uppgjörstímabilsins liðnir. Endanleg niðurstaða kom því á óvart. Þau hjá Play höfðu líka margsinnis sagt að lausafjárstaðan þann 30. júní yrði sú lægsta sem myndi sjást. Þess vegna er rekstrarniðurstaðan og sú staðreynd að nú eigi að auka hlutafé ekki í neinum takti við það sem hafði komið fram,“ sagði Bogi jafnframt við Túrista.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, svaraði ummælum Boga í samtali við sama miðil. Þar furðaði hann sig á ummælum Boga og sagði vel pláss fyrir tvö sterk íslensk flugfélög. Um leið ítrekaði hann fyrri skilaboð um að flugfélagið hefði ekki ráðist í hlutafjáraukninguna af nauðsyn heldur vildu stjórnendur Play styrkja stöðu félagsins.

Lággjaldamódelið eigi eftir að sanna sig

Egill Almar Ágústsson, sérfræðingur í flugrekstri, tekur undir sjónarmið Boga um rekstrarniðurstöðu þriðja fjórðungs og hlutafjáraukninguna. Hann telur að helsta keppikefli stjórnenda Play sé að auka tekjur félagsins.

Egill Almar Ágústsson, sérfræðingur í flugrekstri.
Egill Almar Ágústsson, sérfræðingur í flugrekstri.

„Síðast þegar tvö íslensk flugfélög voru starfrækt, Wow air og Icelandair, áttu félögin við þveröfug vandamál að stríða. Wow glímdi við tekjuvandamál meðan Icelandair var með of háan kostnað. Wow gat í raun aldrei skapað tekjur í líkingu við Icelandair. Þær þurftu svo sem ekki að vera sambærilegar þar sem kostnaður Wow var lægri. En kjarni vandamáls Wow var samt alltaf sá að þrátt fyrir að tekjur félagsins mættu vera lægri en hjá Icelandair, þar sem kostnaður var lægri, þá voru tekjurnar oftast undir þeim mörkum sem þær þurftu að ná svo að rekstur félagsins gæti talist sjálfbær.“

Play verði því að sýna fram á að félagið geti myndað meiri tekjur en Wow gerði og um leið að lágfargjaldarekstrarmódel félagsins virki. „Play hefur staðið sig vel í að ná lágum kostnaði en það er enn óvíst hvort félagið geti skapað nægar tekjur til að geta rekið lággjaldaflugfélag frá Íslandi. Icelandair var með tiltölulega lágan kostnað á tímabilinu 2014-2016 og félagið gat sýnt fram á að það gæti myndað tekjur sem stæðu undir þeirra rekstrarmódeli á Íslandi. Wow air náði aldrei að sanna að lágfargjaldarekstrarmódelið gengi upp á Íslandi.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.