Pólitísk afskipti verkalýðshreyfingarinnar eða kjarasamninga eru orðin alltof mikil. Það er miklu meira af einhverjum löngum kröfulistum hér á stjórnvöld til þess að tryggja kjarasamninga heldur en við sjáum í nágrannalöndum okkar‏. Mér finnst þetta vera bara brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem það er alveg skýrt að vinnudeilu má ekki beita í pólitískum tilgangi,“ segir Þorsteinn Víglundsson í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Pólitísk afskipti verkalýðshreyfingarinnar eða kjarasamninga eru orðin alltof mikil. Það er miklu meira af einhverjum löngum kröfulistum hér á stjórnvöld til þess að tryggja kjarasamninga heldur en við sjáum í nágrannalöndum okkar‏. Mér finnst þetta vera bara brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem það er alveg skýrt að vinnudeilu má ekki beita í pólitískum tilgangi,“ segir Þorsteinn Víglundsson í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

„Hér er að lengjast alltaf listinn sem verkalýðshreyfingin kemur með að borði stjórnvalda og það er þá í raun og veru ekki lengur á færi vinnuveitenda að ljúka kjarasamningsviðræðum af því að kjaradeilan stendur að stórum hluta til upp á stjórnvöld að leysa með einhverjum loforðum,“ segir Þorsteinn sem var félagsmálaráðherra árið 2017 og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á árunum 2013-2016.

Fjöldi loforða ríkisstjórna við gerð kjarasamninga hefur farið aukist töluvert frá aldamótum og gaf ríkisstjórnin fleiri fyrirheit á síðasta samningstímabili en nokkru sinni fyrr. Þorsteinn segir að þetta sé ósiður sem hafi í raun byrjað með Þjóðarsáttarsamningnum árið 1990 og færst í aukana síðan.

„Ég held að þessi ríkisstjórn núna, alveg frá fyrra kjörtímabili sínu, hafi gert stórkostleg pólitísk mistök að taka kjarasamningana alltof nálægt sér með mjög reglulegu samráði við aðila vinnumarkaðarins og í raun og veru bara að ætla sér sæti við kjarasamningaborðið beint eða óbeint.“

Hvert er pólitískt umboð forystu verkalýðshreyfingarinnar?

Þorsteinn segir mjög sérstakt að ætla að blanda saman kjarasamningum og pólitískum áherslumálum, sérstaklega ef horft er til umboðs ríkisstjórnarinnar annars vegar og forystu verkalýðshreyfingarinnar á almenna vinnumarkaðnum hins vegar.

„Sem lýðræðissamfélag erum við með hvað mestu pólitísku þátttöku meðal vestrænna þjóða, gríðarlega hátt hlutfall fólks sem nýtir kosningarétt sinn. Í verkalýðshreyfingunni er verið að kjósa forystu með atkvæðum 5-10% félagsmanna (þ.e.a.s. á almenna vinnumarkaðnum, þátttakan er mun hærri á þeim opinbera).

Þá getur maður spurt, hvert er pólitískt umboð forystu verkalýðshreyfingarinnar á almenna vinnumarkaðnum til þess að gera víðtæka kröfugerð á lýðræðislega kjörin stjórnvöld þegar sömu stjórnvöld sitja í umboði meirihluta kjósenda hverju sinni? Þessi forysta [verkalýðshreyfingarinnar] situr klárlega ekki í umboði meirihluta kjósenda og ekki einu sinni nálægt því.“

Hann tekur undir sjónarmið um að tryggja þurfi félagslegan stöðugleika en segir þó að á endanum sé það viðfangsefni stjórnvalda.

„Þar verða ASÍ og sambærilegir aðilar að sætta sig við að setjast í hlutverk lobbíistans, þ.e. að vera hagsmunaaðilar með sterka rödd en geta þó ekki knúið stjórnvöld til aðgerða í gegnum hótanir um verkfallsátök eða önnur átök á vinnumarkaði.“

Förum líklega inn í næstu lotu með bitlausan sáttasemjara

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ákvað að leggja ekki fram frumvarp, sem tryggja átti að ríkissáttasemjari geti látið greiða atkvæði um miðlunartillögu, á síðasta löggjafarþingi þrátt fyrir að það hafði verið afgreitt úr þingflokkum stjórnarflokkanna þriggja. Guðmundur Ingi sagði í fjölmiðlum í vor að eftir samtal við forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hafi hann ákveðið að koma til móts við sjónarmið þeirra og freista þess að ná betri samstöðu um málið.

„Mér finnst þetta pólitískt hugleysi, þetta er meðvirkni með verkalýðshreyfingunni,“ segir Þorsteinn. „Það er alveg augljóst að verkalýðshreyfingin setti sig upp á móti því að þessi ákvæði um ríkissáttasemjara væru styrkt í löggjöf og [hún] var látin komast upp með það. Að öllum líkindum erum við að fara inn í næstu kjarasamninga með algjörlega bitlausan ríkissáttasemjara.“

Þorsteinn segir að Aðalsteinn hafi með miðlunartillögunni í kjaradeilu SA og Eflingar beitt þessu úrræði ríkissáttasemjara með meira afgerandi hætti en lengi hafði verið gert.

„Hins vegar var það fullkomið kjaftæði í verkalýðshreyfingunni að halda því fram að um það væri algjörlega óskrifuð regla að þetta mætti aldrei gera nema með samþykki allra. Það hafa fyrri sáttasemjarar bent á, að það hafa verið gerðar miðlunartillögur sem voru í óþökk annars hvors aðilans. Á endanum er þetta tillaga sáttasemja til að höggva á hnút og knýja forystu verkalýðshreyfingarinnar til að leggja tillöguna fyrir félagsmenn sína.“

Ég er nokkuð viss um að miðlunartillaga Aðalsteins hefði verið samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta Eflingarmanna. Það var mjög slæmt að hún fékk aldrei að ganga til atkvæða og mjög slæmt í raun og veru að þetta verði til þess að, af því er mér fannst, mjög góður ríkissáttasemjari skyldi hrekjast úr embætti, væntanlega einmitt af því að hann taldi sig ekki hafa fengið þann stuðning stjórnvalda til þess að hafa einhver raunveruleg úrræði. Að því leytinu til var þetta stórt skref aftur á bak í vinnumarkaðslíkaninu og ekki til þess að auðvelda úrlausn næstu kjarasamninga.“

Þorsteinn ræðir um pólitísk afskipti í kjarasamningsgerð og stöðu ríkissáttasemjara frá 1:16:25-1:23:45.