Pólska ríkisstjórnin hefur undanfarin ár unnið að því að byggja upp her sinn í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Samhliða því hafa Bandaríkjamenn dregið úr skuldbindingum sínum gagnvart Evrópu og ríkir ótti í Evrópu um framtíðaráform rússneska hersins.

Á vef National Interest segir að Pólverjar hafi stóraukið útgjöld sín en ríkisstjórn Póllands undirritaði kaupsamning í byrjun mánaðar um kaup á 180 suðurkóreskum skriðdrekum.

Hinn umræddi K2 Black Panther-skriðdreki er aðalskriðdreki suðurkóreska hersins og er talinn vera einn sá besti í heimi. Hann er búinn 120 mm L/55 fallbyssu með sjálfvirkri hleðslu og getur hleypt af 10 til 15 skotum á mínútu. Skriðdrekinn býr einnig yfir 12,7 mm og 7,62 mm vélbyssum.

Pólverjar hafa áður keypt nokkra K2-skriðdreka frá Suður-Kóreu en nýi samningurinn, sem nemur sex milljörðum dala, markar stórt skref í samskiptum þessara tveggja þjóða.

Árið 2022 varð Pólland stærsti varnarmálaviðskiptavinur Suður-Kóreu og er talið að Pólland hafi keypt suðurkóresk vopn fyrir 22 milljarða. Þar á meðal voru 212 K9 Howitzer-fallbyssur, 48 FA-50 herþotur og nokkrar Chunmoo-eldflaugar.