Grunnkerfi Póstsins voru uppfærð í síðasta mánuði í samstarfi við Origo, Andes og AWS. Benedikt Þorgilsson, teymisstjóri hugbúnaðar hjá Póstinum, segir það stórt framfaraskref að hafa fært alla innviði yfir í skýið.

Grunnkerfi Póstsins voru uppfærð í síðasta mánuði í samstarfi við Origo, Andes og AWS. Benedikt Þorgilsson, teymisstjóri hugbúnaðar hjá Póstinum, segir það stórt framfaraskref að hafa fært alla innviði yfir í skýið.

„Uppfærslan var margþætt en fyrst og fremst snerist hún um að uppfæra grunnkerfi Póstsins, SAP, í nýjustu útgáfuna. En á meðan hún fór fram þurfti að vinna mörg verkefni samtímis, meðal annars að færa allt yfir í skýið. Það verður teljast lygilegt að vinnsla gæti hafist snurðulaust strax eftir uppfærsluna. Þetta er upphafið að stærra verkefni sem felur í sér að styrkjaundirstöður tæknikerfa Póstsins með það að markmiði að geta þjónustað notendur enn betur í framtíðinni,“ segir Benedikt.

Þegar uppfærslan stóð yfir varð lítil sem engin röskun á þjónustu Póstsins, að því er segir í fréttatilkynningu.

„Það var ákveðin áskorun því ekki er sjálfgefið að halda þjónustunni gangandi þegar fram fer uppfærsla af þessari stærðargráðu. Sérstaklega þegar kerfið sem verið er að uppfæra inniheldur öll gögnin sem tengjast þjónustunni,“ bætir hann við.

Benedikt segir það ekki síst samstarfsaðilum Póstsins að þakka hve vel verkefnið gekk því flutningur upp í skýið kalli á sérfræðiþekkingu og góða samvinnu. „Þau hjá Origo, Andes og AWS voru vakin og sofin yfir þessu, enda gekk uppfærslan vonum framar. Við hjá Póstinum erum sannfærð um að nýtt og uppfært kerfi eigi eftir að reynast okkur vel."