Pósturinn og vefsíðan 1111.is hafa tekið höndum saman fyrir Dag einhleypra sem er næstkomandi föstudag, 11. nóvember. Brynja Dan Gunnarsdóttir heldur úti síðunni 1111.is en hún var með þeim fyrstu til að kynna Dag einhleypra fyrir Íslendingum.
„Þetta er áttunda skiptið sem við tökum þátt og við erum að sjálfsögðu alltaf að reyna að gera betur og verða stærri og sterkari. Stór partur af því er að fá til okkar góða samstarfsaðila. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað viðtökurnar hafa verið góðar með Singles day og hvað fólk er spennt,“ segir Brynja í tilkynningu.
Hún bætir við að það kæmi ekki á óvart ef dagur einhleypra yrði vinsælasti tilboðsdagurinn þar sem hann er fyrstur í röðinni en í kjölfar hans koma svartur föstudagur þann 25. nóvember og netmánudagur þann 28. nóvember.
„Pósturinn mun ekki láta sitt eftir liggja þennan dag. Við dreifum í 155 þúsund lúgur og erum með yfir 170 afhendingarstaði um allt land. Fólk er sérlega ánægt með að hafa val um hvernig það nálgast vöruna sem það kaupir í netverslunum. Sumum hentar vel að fá pakkana senda heim að dyrum en aðrir vilja nýta sér póstbox í hverfinu sínu. Þess má líka geta að póstboxin eru bæði umhverfisvænasti og hagkvæmasti kosturinn,“ segir Kristín Inga Jónsdóttir, markaðsstjóri Póstsins.
Til að bregðast við auknum umsvifum hefur Pósturinn fengið pakkaflokkarann Magna til liðs við sig en hann getur flokkað mörg þúsund pakka á klukkustund að sögn Kristínar.
„Afköstin hafa því margfaldast sem styttir biðtímann eftir sendingunum, öllum til mikillar gleði. Það er ánægjulegt að fylgjast með þeirri hröðu framþróun sem orðið hefur í netverslun á Íslandi og við hlökkum til að þeytast um með sendingar á tilboðsdögunum, fylla á póstboxin um allt land eða heimsækja fólk um borg og bý.“
Rætt er við Brynju Dan í tilefni af Degi einhleypra í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.