Pósturinn hefur opnað nýjan fyrirtækjavef sem nefnist Fyrirtækjasíður. Um er að ræða þjónustuvef fyrir öll fyrirtæki en þróun vefsins fór meðal annars fram í samstarfi við viðviðskiptavini.

Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar Póstsins, segir nýjan þjónustuvef bjóða upp á ýmsa möguleika. Fyrirtæki geta til að mynda fylgst með sendingum sem þau eiga von á og stillt verðlag.

„Nýtt kerfi veitir okkur meiri sveigjanleika til að bregðast fljótt við óskum viðskiptavina. Til dæmis vildu viðskiptavinir okkar geta pantað bíl með skömmum fyrirvara inni á vefsvæðinu og við því var orðið.“

Sigríður bætir við að vefurinn einfaldi afhendingar á vörum en á nýja vefnum er til að mynda hægt að afrita sendingar. Netverslanir þurfa því ekki að skrá allar upplýsingar aftur inn í kerfið ef viðskiptavinur er t.d. að skipta í rétta stærð.

„Kerfið er í stöðugri þróun og við höldum ótrauð áfram. Næst á dagskrá er að bæta Tollamiðlun inn á vefinn en stefnan er að hafa allt sem varðar póstmálin á einum stað og einfalda viðskiptavinum okkar lífið.“