Nýverið var gefin út skýrsla um ástand alþjóðlega póstgeirans og fékk Íslandspóstur 66,8 stig sem setur Póstinn í PDL 8 (PDL, Postal Development Level) sem er talsverð bæting á milli ára en í fyrra var PDL-einkunn Póstsins 4.

Íslandspóstur telur líklegt að hækkunina tengist breytingu á aðferðafræði við að meta stöðu landa en einnig til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á vinnslu sendinga hjá Póstinum, innviðauppbyggingar og hagræðingaraðgerða.

„Þegar niðurstöður síðasta árs voru skoðaðar nánar kom í ljós að það voru ákveðnir þættir sem skekktu niðurstöður skýrslunnar,“ segir í tilkynningu frá Póstinum.

Í skýrslunni eru mældir fjórir þættir. Í fyrsta lagi hversu vel landið er tengt alþjóðlega, í öðru lagi hraðagæði og fyrirsjáanleiki afhendingartíma, í þriðja lagi samkeppnishæfni landa út frá mikilvægasta viðskiptahluta þess sem og þéttleika innviða og í fjórða lagi aðlögunarhæfni póststjórna eftir efnahagslegum þáttum, félagslegum þáttum, tæknilegum þáttum og umhverfisáföllum.

Í fyrsta þætti sem kallað er Postal Reach fór Pósturinn úr 7,27 stigum í 59,3 stig. Pósturinn rekur þessa miklu framför að mestu leyti til þess að Ísland var vanmetið í þessum flokki áður. Ekki hafi verið tekið réttilega tillit til eyríkja eins og Íslands sem senda póst til flestra landa heims í samvinnu við önnur lönd. Þetta hafi nú verið lagað.

Í öðrum þætti sem kallaður er Postal Reliability eru hraðagæði og fyrirsjáanleiki afhendingartíma tekin fyrir. Þar fer Pósturinn úr 8,02 stigum í 87,6 stig og eru ástæður þess aðallega tvær.

„Í mælingu fyrra árs voru hraðagæði vanmetin hjá Íslandi og öðrum eyríkjum vegna tæknilegrar uppsetningar en einnig vegna breytinga á vinnslu sendinga hjá Póstinum. Þær hafa stóraukið afhendingarhraða hjá Póstinum á erlendum sendingum til landsins.“

Einkunnagjöf í alþjóðlegri skýrslu um ástand póstgeira.

Í þriðja þætti er samkeppnishæfni landa metin út frá mikilvægasta viðskiptahluta landanna sem og þéttleika innviða. Þar lækkar Pósturinn úr 23,85 stigum í 20,7 stig. Pósturinn segist eftir að fá skýringar á því af hverju hann lækkar undir þessum lið en bætir þó við að allt yfir 20 í þessum flokki þyki gott.

Fjórði og síðasti þátturinn mælir þrautseigju fyrirtækja. Hér fór Pósturinn úr 66,65 í 85,5 stig „sem við teljum vera eðlilegt miðað við hagræðingaraðgerðir undanfarinna ára vegna minnkandi bréfamagns í umferð“.

,,Við erum afskaplega stolt af árangri Póstsins í alþjóðapóstsamfélaginu og við kappkostum á hverjum degi að gera okkar allra besta og nýta gögn til þess að auka hraða og gæði. Fjárfestingar okkar í innviðum eru að skila sér í auknum hraða og fjölgun afhendingarleiða. En við erum hvergi nærri hætt og munum halda áfram innviðauppbyggingu á næstu árum til að fjölga snertiflötum við viðskiptavini okkar um allt land,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.