Á næstu dögum og vikum mun íþróttadrykkurinn Powerade fara í sölu tímabundið með hefðbundnum flötum áföstum töppum, í stað tappa með stút, eða sporttappans svokallaða.
Í tilkynningu frá Coca Cola á Íslandi segir að ný reglugerð hafi tekið í gildi í Evrópu sem krefur alla framleiðendur um að setja áfasta tappa á plastflöskur sem hefur það að markmiði að draga úr plastmengun í heiminum.
Í gæðaprófunum tengt nýju áföstu sporttöppunum sem valdir höfðu verið fyrir Powerade fyrir Evrópumarkað kom í ljós að tapparnir uppfylltu ekki þær gæða-, öryggis og þægindakröfur sem gerðar eru.
Var því tekin sú ákvörðun að framleiða Powerade með flötum áföstum tappa tímabundið þar til áfastir sporttappar, sem uppfylla kröfur um gæði, öryggis- og þægindi eru tilbúnir úr framleiðslu.

„Við vonum að biðin eftir nýju áföstu sporttöppunum verði ekki of löng en þó er búist við að það taki einhverja mánuði. Við vitum að Powerade á marga dygga aðdáendur sem hafa vanist sporttappanum og vonum við að neytendur sýni þessari tímabundnu lausn skilning og þolinmæði,“ segir Sólrún Þórðardóttir, vörumerkjastjóri Powerade á Íslandi.
Breytingin gildir ekki bara um Ísland heldur flest lönd í Evrópu sem fá vöruna frá sama framleiðanda.