Prada er langt á veg komið að kaupa Versace fyrir 1,5 milljarða evra, að því er Bloomberg greindi frá í gærkvöldi. Útlit er því fyrir að tvö af þekktustu hátískuvörumerkjum Ítalíu sameinist en heimildarmenn telja mögulegt að gengið verði frá kaupsamningi síðast í mánuðinum.
Seljandinn er Capri Holdings, sem á einnig tískuvörumerki á borð við Jimmy Choo og Michael Kors. Upphaflega vonaðist félagið eftir að selja Versace, sem er með höfuðstöðvar í Mílan, fyrir 3 milljarða evra. Capri keypti Versace árið 2018 í 1,85 milljarða evra viðskiptum.
Heimildarmenn Bloomberg árétta að kaupverðið og tímasetning viðskiptanna gætu tekið breytingum. Fram kemur þó að áreiðanleikakönnunum sé lokið og viðræðum vindur fram.
Miuccia Prada, meðstofnandi og ráðandi hluthafi Prada, sagði á tískusýningunni í Mílan á fimmtudaginn að „allir væru að horfa á“ Versace. Talsmaður Prada vildi ekki tjá sig um málið en félagið mun hins vegar birta ársuppgjör 2024 á morgun.