Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir er með þá reglu að ljúka aldrei stórum viðskiptum á mánudögum. Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark nefnir hann að ýmsir sjómenn segjast aldrei fara út á sjó á mánudögum. Þá séu nýjar verslanir aldrei opnaðar í fyrsta sinn á mánudögum, enda væri það fráleitt að hans sögn.

„Það er eitt af prinsippunum […] Afi var með þessa reglu, pabbi var með þessa reglu og ég hef bara haldið henni við.“

Þáttastjórnendur minntust á að yfirtökutilboð Strengs í Skel fjárfestingafélag, sem hét þá Skeljungur, í árslok 2020 hafi verið birt á sunnudagskvöldi. Heimildir þeirra herma að Jón Ásgeir hafi látið samstarfsmenn sína vita að ef tilboðið yrði ekki lagt fram á sunnudegi, yrði að bíða með það til þriðjudags. Jón Ásgeir hafnaði ekki þessari frásögn.

„Það hefur oft verið þannig að hlutirnir hafa gerst hraðar af því að menn vissu af því að þetta mætti ekki gerast á mánudögum.“

Bónus bestu viðskiptin, Nyhedsavisen þau verstu

Spurður um bestu og verstu dílana á ferlinum, þá segir Jón Ásgeir að stofnun Bónus árið 1989 sé efst á blaði. „Það var lítið sett í hlutafé og mikill success.“

Hann nefnir einnig Iceland Foods og Magasin Du Nord sem skemmtileg viðskipti hjá Baugi. Í tilviki dönsku stórverslunarinnar Magasin hafi sérstaklega skemmtilegt að snúa slíku fyrirtæki við eftir taprekstur í nokkra áratugi hjá Dönunum sem áttu það áður. Þá hafi Iceland matvöruverslanakeðjan verið slöpp og döpur þegar Baugur tók við henni en tekist hafi laga reksturinn á skömmum tíma.

„Ég sé að við erum að rífast við Iceland með nafnið í dag. Það sem er merkilegt er að við buðum íslensku ríkisstjórninni að fá nafnið á sínum tíma […] Að við myndum þá fá að nota það sem stórmarkaðsnafn í Bretlandi og fá að vera með það í friði,“ segir Jón Ásgeir.

„Það einhvern veginn var ekki tekið vel í það. Svo kemur í ljós núna að þetta er stórmál. Þeir hefðu betur samþykkt þetta. Þá væru þeir allavega ekki í einhverjum dómsmálum – að Iceland Foods væri eitthvað að flækjast fyrir Iceland þjóðarvörumerkinu.“

Hvað varðar versta dílinn nefnir Jón Ásgeir Nyhedsavisen, blaðaútgáfu að hætti Fréttablaðsins í Danmörku á árunum 2006-2008.

„Ég held að Nyhedsavisen díllinn í Danmörku hafi verið eitthvað það vitlausasta sem farið var í […] Þar vorum við svona... það var ekki skynsamlegt.“

Sósíalistaforingi á einkaþotu

Við þetta má bæta að Jón Ásgeir fjallaði um Nyhedsavisen í bókinni Málsvörn, sem kom út í byrjun árs í fyrra. Á þessum árum, skömmu fyrir hrun, voru Norðurljós og Fréttablaðið sameinuð og fyrirtækið Dagsbrún stofnað.

„Gunnar Smári Egilsson seldi mér þá hugmynd að hann sjálfur ætti að verða forstjóri þess, og þá var Sigurði G. sagt upp," segir Jón Ásgeir í bókinni. „Það voru margir ósáttir innan Dagsbrúnar, þarna var Fréttablaðsfólkið versus Norðurljósafólkið, þetta var mjög erfiður kúltúr. […]

En Gunnar Smári var alveg að missa tökin, og það næsta sem var fundið uppá var að stofna Nyhedsavisen í Danmörku. (Sem var gefið út 2006–2008.) En það var engin heimavinna unnin. Það var tilkynnt digurbarkalega á blaðamannafundi um stofnun blaðsins löngu áður en það átti að fara að koma út. Og gefið í skyn að samkeppnin mætti fara að vara sig. Sem þýddi að hún hafði nægan tíma til að undirbúa það, starta sínum eigin fríblöðum og svo framvegis. Svo höfðu menn ekkert hugsað út í það að þótt það sé yfirleitt opið að utan að póstkössum og lúgum hér á landi, þá þarf lykla til að komast að þeim víðast hvar í Danmörku. Gunnar Smári lét sig á endanum hverfa og tapið var gígantískt, og líka á öðru fríblaði, Boston Now vestanhafs, þótt ekki væri það sambærilegt við tapið í Danmörku. Eftir hrun var Gunnar Smári síðan fljótur að byrja að drulla okkur út í sínum ummælum og skrifum. Og svo er hann sósíalistaforingi í dag, maður sem í þá daga nennti helst ekki til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu.“