Rachel Reeves fjármálaráðherra Breta olli 3 milljarða punda, eða 525 milljarða króna, verðfalli á mörkuðum á miðvikudag eftir að hún brast í grát á óundirbúnum fyrirspurnartíma forsætisráðherra.
Fjármálaráðherrann sást þurrka sér um augun þegar Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, lét hjá líða að staðfesta að hún yrði áfram í embætti, sem vakti spurningar um stöðu hennar til framtíðar.
Gráturinn hafði áhrif á fjármálamarkaði. Áöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréf Bretlands hækkaði verulega og varð þetta eitt mesta stökk hennar frá því Liz Truss var forsætisráðherra. Gengi pundsins féll einnig og lækkaði um tæplega 1 prósent gagnvart Bandaríkjadal.
The Telegraph fjallaði í kvöld stöðu fjármálaráðherrans, sem hefur átt mjög erfiða viku, sem lauk í dag með því að hún brast í grát á fremsta bekk í þinginu.
Þrjú mál hafa verið henni sérstaklega erfið undanfarið. Niðurskurður í velferðarmálum, vaxandi útgjöld ríkisins sem hún þarf að fjármagna í haust og erfiðleikar í einkalífi hennar, sem ekki hefur verið nánar upplýst um - en vísað var til í svörum fjármálaráðuneytisins í dag.
Síðastliðinn fimmtudag, þegar hún var í heimsókn í verksmiðju JCB - sem framleiðir meðal annars gröfur, frétti hún að Keir Starmer hefði snúið við fyrstu stefnu sinni og fellt út allt að 2,5 milljarða punda fyrirhuguðum sparnaði á bótakerfinu.
Á laugardag bárust fregnir um að Reeves hefði eytt stórum hluta dagsins í tárum eftir erfiðar samningaviðræður við samstarfsfólk og átök við ósveigjanlega þingmenn. Fjármálaráðuneytið neitaði þessum fregnum.
Daginn eftir birti annað dagblað frétt um að Reeves hefði gert Marie Tidball, þingmann og baráttukonu fyrir réttindum fatlaðs fólks, svo hrædda í símtali að hún hefði farið að gráta. Þeirri frétt var einnig neitað.
En á mánudag voru þingmenn Verkamannaflokksins farnir að tala opinskátt gegn sparnaði í velferðarkerfinu og sökuðu forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann um að hunsa áhyggjur þeirra.
Reeves og áhyggjur hennar af fjárlögum voru sagðar ástæðan fyrir deilunni og margir uppreisnarþingmenn kölluðu eftir því að hún annaðhvort bryti eigin fjárlagareglur eða kæmi á róttækum auðlegðarskatti.
Keir Starmer var dreginn í sitt hvora áttina af fjármálaráðherranum annars vegar og þingmönnum sínum hins vegar – og báðir hópar sögðu afleiðingarnar yrðu alvarlegar ef hann gengi í rangt lið.
Reeves hélt því fram að ef horfið yrði af af braut aðhalds í velferðarmálum myndi enn veikja fjárhagslega stöðu ríkisins og stöðu ríkisstjórnarinnar.
Að lokum voru það uppreisnarmennirnir sem unnu. Á þriðjudagsmorgni, þegar ríkisstjórnin var að undirbúa u-beygjuna, mætti Rachel Reeves í fyrirspurnartíma í þinginu.
„Hún var í slæmu ástandi,“ rifjaði upp einn þingmaður sem var í salnum á þeim tíma. „Hún er ekki mjög góð í þinginu og almennt ekki öruggur ræðumaður, en þarna var hún bara alls ekki með þetta á hreinu. Hún tók gagnrýni illa og fór nokkrum sinnum verulega úr jafnvægi.“
Spennan í samskiptum hennar við eigin samflokksmenn og stjórnarandstæðinga var mikil en það sauð upp úr í rifrildi við Sir Lindsay Hoyle, forseta þingsins, sem kvartaði yfir því að fjármálaráðherrann héldi sér ekki innan ræðutíma.
Sir Lindsay hóstaði á meðan hún talaði – sem var viðvörun um að hún ætti að hætta að tala út í loftið – og greip svo fram í: „Regla!“ Reeves svaraði hvöss: „Ókei þá! Allt í lagi.“
Einn þingmaður rifjar upp. „Hún settist niður í miklu fússi og velti augunum til hans, sem honum líkaði alls ekki.“
Þetta atvik vakti litla athygli í Westminster á annars viðburðaríkum degi, en Quentin Letts, pólitískur dálkahöfundur, kipptist við og tísti: „Sjaldgæft að nokkur þingmaður – hvað þá ráðherra í ríkisstjórn – hegði sér svona gagnvart forseta þingsins. Finnur hún fyrir þrýstingi?“
Þriðjudagskvöldið, á meðan ríkisstjórnin undirbjó enn eina stefnubreytinguna, gekk fjármálaráðherrann um þinghúsið og hugsaði með sér hvernig hún ætti að ná inn 5 milljörðum punda til viðbótar í fjárlögunum — og halda embættinu.
Hún sneri stuttlega aftur á skrifstofuna sína á meðan umræðurnar stóðu yfir, leit döpur út, og beið eftir lokaatkvæðagreiðslunni klukkan 19:20 áður en hún fór heim í íbúð sína á Downingstræti 11.
Meðan átök og baktal þingmanna áttu sér stað í kringum hana, hefur komið í ljós að Reeves glímdi jafnframt við persónuleg vandamál sem gerðu vikuna enn erfiðari.
Heimildarmenn í Downingstræti og fjármálaráðuneytinu vildu ekkert segja um eðli þessara vandamála, en Reeves mætti aftur í þingið á miðvikudag til óundirbúinna fyrirspurna forsætisráðherra – án þess að hafa rætt við Sir Keir.
Þegar hún kom að inngangi þingsalarins, bak við forsetastólinn, rakst hún á Sir Lindsay Hoyle þingforseta, sem enn var æfur yfir árekstrinum frá deginum áður.
Í eldfimu samtali sem stóð varla nema tvær mínútur áminnti hann hana fyrir framkomuna og benti á að færslan um hana hefði fengið 60.000 áhorf á netinu.
Það var þá sem – að sögn sjónarvotta – flóðgáttirnar opnuðust. Reeves „brast í grát“ skömmu áður en hún átti að birtast fyrir framan myndavélar á fyrirspurnartímanum.
Þegar klukkan nálgaðist tólf, sögðu samverkamenn hennar í þinginu að hún hafi greinilega verið miður sín.
„Hún var mjög, mjög tilfinningaþrungin,“ sagði einn þingmaður sem fylgdist með fjármálaráðherranum ganga inn. „Það var erfitt að horfa upp á. Hún var að þurrka sér um augun frá fyrstu mínútu.“
Chris Ward, þingmaður Verkamannaflokksins og aðstoðarmaður Sir Keir í þinginu, reyndi að rétta sig yfir frá bekknum fyrir aftan til að athuga hvernig hún hefði það, en var snarlega hrundið frá.
Sú stund, sem sást á sjónvarpsútsendingu þingsins og dreifðist hratt á netinu, hefur síðan orðið ein af þeim myndum sem einkennir pólitíska örlagaviku Rachel Reeves.
Markaðir áttuðu sig samstundis á því að eitthvað væri í ólagi — ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum skaust upp og gengi pundsins féll hratt.
Þeir sem standa Reeves nær halda því eindregið fram að tárin hafi ekki stafað af pólitískum átökum vikunnar. Sögusögnum um rifrildi snemma morguns á Downingstræti milli forsætisráðherrans og fjármálaráðherrans var neitað — þar á meðal þeim sem sagðir eru hafa dreift þeim.
Engin tilraun hefur verið gerð til að útskýra frekar hvers vegna Reeves var svo miður sín þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi þrýst á um ítarlegri skýringar.
„Það er eitthvað mjög dularfullt í gangi, og ‘persónuleg ástæða’ útskýrir það ekki fyllilega,“ sagði talsmaður Kemi Badenoch leiðtoga Íhaldsmanna.
Í staðinn eyddi fjármálaráðherrann restinni af deginum fjarri sviðsljósinu — fyrst á skrifstofunni sinni í þinghúsinu og síðan á Downingstræti, þar sem hún vann út daginn.
Síðasta skiptið sem sást til hennar var klukkan 12:30, þegar fyrirspurnartíminum lauk og hún leitaði stuðnings hjá systur sinni Ellie – sem er formaður Verkamannaflokksins.
„Hún greip í Ellie og þaut út á skrifstofu,“ rifjaði upp einn þingmaður. „Hún var að flýta sér. Það var greinilegt að hún vildi bara komast burt — strax.“