Sterlingspundið hefur hækkað um 0,4% gagnvart Bandaríkjadal í morgun eftir um 0,5% hækkun í gær.
Nýbirtar efnahagstölur í Bretlandi fyrir maímánuð sýndu meiri vöxt hagkerfisins en fjárfestar áttu von á samhliða því að Bandaríkin birtu verðbólgutölur sem auka líkurnar á vaxtalækkun í september, samkvæmt Financial Times.
Pundið rauk upp í 1,2962 Bandaríkjadali en pundið fór síðast yfir 1,3 dali fyrir rúmum tveimur árum.
Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 3% í júnímánuði og eru fjárfestar sannfærðir um að vaxtalækkun verði á næsta fundi peningastefnunefndar bandaríska seðlabankans.
Samkvæmt Hagstofu Bretlands jókst verg landsframleiðsla Bretlands um 0,4% milli mánaða í maí sem er um tvöfalt meiri aukning en hagfræðingar höfðu spáð.