Breska pundið hefur verið í miklum sveiflum í dag eftir að Englandsbanki hækkaði stýrivexti 50 punkta í hádeginu. Meginvextir bankans fóru upp í 5% og hafa þeir ekki verið hærri síðan í apríl 2008.
Fjárfestar höfðu flestir reiknað með 25 punkta hækkun þó einhverjir voru sannfærðir um að bankinn myndi tvöfalda það. Verðbólgan í Bretlandi hefur verið þrálát og helst hún óbreytt milli mánaða í 8,7%.
Pundið styrktist gagnvart Bandaríkjadal um 0,3% eftir hækkunina en lækkaði síðan snöggt um 0,2% en pundið hafði hækkað um 0,1% skömmu fyrir ákvörðunina.
FTSE 250 vísitalan hélt áfram að lækka
Hlutabréf féllu en FTSE 100 vísitalan í Kauphöllinni í Lundúnum féll um 1,2% á meðan FTSE 250 vísitalan féll um 1%. Báðar vísitölurnar höfðu fallið fyrir ákvörðunina sú fyrri um 0,7% og seinni um 0,9%.
Ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréf féll í 4,323% úr 4,406% eftir ákvörðun bankans.
Sannfærðir um frekari hækkanir
Peningastefnunefnd Englandsbanka klofnaði í ákvörðun sinni en sjö nefndarmeðlimir vildu hækka um 50 punkta á meðan tveir vildu halda vöxtum óbreyttum.
Fjárfestar virðast sannfærðir um að bankinn muni hækka vexti í 6% fyrir byrjun næsta árs, samkvæmt gögnum frá Tradeweb.