Veitingastaðurinn Pure Deli hefur opnað í Kópavoginum á ný og tók á móti sínum fyrstu viðskiptavinum í nýju rými við Bæjarlind rétt fyrir páska. Fyrri veitingastaðurinn hafði verið til húsa við Urðarhvarf en neyddist til að loka vegna bruna sem átti sér stað árið 2023.
Ingibjörg Þorvaldsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Pure Deli, segir í samtali við Viðskiptablaðið að endurkomusaga staðarins sé skemmtileg þrátt fyrir að hún sé sorgleg líka.
„Fyrirtækið er núna orðið átta ára gamalt en þann 11. september 2023 kviknaði í hjá nágranna okkar í Urðarhvarfi. Svo varð altjón þegar veggurinn sem var á milli brotnaði sem varð til þess að við neyddumst til að loka.“
Tveimur mánuðum eftir brunann keypti Ingibjörg svo rýmið þar sem Fresco var í Skeifunni og með nýjustu opnun í Bæjarlind eru nú Pure Deli-veitingastaðirnir orðnir tveir.
Hún segir að eldhúsið á nýja staðnum sé stærra en mikil eftirspurn hefur verið hjá veitingastaðnum þegar kemur að fyrirtækjaþjónustu. Pure Deli opnar líka snemma á morgnana og er stærra eldhús kærkomið til að sjá um bæði morgunmat og hádegismat.
„Þróunin síðustu ár hefur verið sú að fólk sækist meira í úthverfin og er líka að borða meira úti. Þá er svo þægilegt að geta farið út að borða í sínu nágrenni og að þurfa ekki að keyra of langt,“ segir Ingibjörg.