Kínversk stjórnvöld hafa sett PwC í Kína í hálfs árs rekstrarbann og sektað endurskoðunarfyrirtækið um 441 milljónir júan, eða um 8,5 milljarða króna vegna endurskoðunar félagsins á reikningsskilum hins gjaldþrota fasteignarisa Evergrande.

Þetta er stærsta sekt sem stjórnvöld í Peking hafa lagt á eitt af fjórum stóru endurskoðunarfyrirtækjum heims til þessa, að því er segir í frétt Financial Times.

Ákvörðunin kemur í þess að kínverskir eftirlitsaðilar lýstu því yfir í mars að Evergrande hefði blásið upp (e. inflate) tekjur í reikningsskilum sínum um allt að 80 milljarða dala á síðustu tveimur rekstrarárunum áður en fasteignaþróunarfélagið varð greiðsluþrota árið 2021.

Kínverska fjármálaráðuneytið sagði í morgun að PwC Zhontian, sem er gjarnan kallað PwC í Kína, og útibú fyrirtækisins í Guangzhou séu meðvituð um „meiriháttar mistök“ í tengslum við endurskoðun á reikningsskilum Evergrande á árunum 2018 til 2020. Ráðuneytið hefur jafnframt skipað PwC að loka umræddu útibúi í Guangzhou.

Þá hefðu verið nokkrir brestir í endurskoðunarferli hjá Hengda Real Estate, rekstrareiningar Evergrande á meginlandi Kína, sem hafi leitt til margra rangra ályktana, að því er segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Verðbréfaeftirlit Kína sagði að ekki aðeins hefði PwC gert afdrifarík mistök við endurskoðunina heldur hefði félagið leynt og horft fram hjá fjársvikum og sviksamlegri skuldabréfaútgáfu Hengda Real Estate.

PwC sendi frá sér yfirlýsingu og morgun þar sem endurskoðunarfyrirtækið segist vonsvikið með endurskoðunarvinnu PwC Zhong Tian hjá Hengda sem hafi verið langt undir þeim gæðakröfum sem ætlast er af aðildarfyrirtækjum í alþjóðlegu neti PwC. Slíkt væri óásættanlegt.

Fyrirtækið segist hafa sagt upp sex meðeigendum og fimm starfsmönnum sem höfðu beina aðkomu að endurskoðuninni á Evergrande.