Kínverska fasteignafélagið Evergrande tilkynnti í dag að alþjóðlega endurskoðunarfélagið PwC hefði sagt af sér sem endurskoðandi félagsins. Félagið hefur ráðið Prism Hong Kong tímabundið sem endurskoðanda.

Í kauphallartilkynningu segir að Evergrande og PwC hafi greint á um tímalínu og umfang verkefnis sem snýr m.a. að mati á rekstrarhæfi fasteignafélagsins og virðisrýrnunarprófum fyrir ársreikning 2021. Stjórn Evergrande mælti því með að PwC myndi segja sig frá verkefninu.

Í uppsagnarbréfi sínu til endurskoðunarnefndar og stjórnar Evergrande segist PwC ekki enn hafa fengið afhentar upplýsingar um mikilvæg þætti, þar á meðal sjóðsstreymisspá og samstæðureikningsskil sem og reikningsskil ákveðinna dótturfélaga.

Tilraunir Evergrande til að semja við lánardrottna hafa verið undir smásjá eftir að félagið varð greiðsluþrota fyrir meira en ári síðan. Erlendar skuldir fasteignafélagsins nema um 22,7 milljörðum dala, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Stjórnin segir brýnt að ljúka uppgjöri ársins 2021 til að hindra ekki frekar endurskipulagningu á fjármálum félagsins.