Ástralska flugfélagið Qantas mun skera niður starfslokasamning fyrrverandi forstjóra síns, Alan Joyce, um 40%. Joyce, sem hafði starfað sem forstjóri Qantas í mörg ár, tilkynnti í fyrra að hann myndi hætta í ljósi vaxandi gagnrýni á stjórnarhætti hans.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC segir að Qantas muni einnig skera niður skammtímaívilnanir fyrir bæði núverandi og fyrrverandi stjórnendur um þriðjung.

Qantas hefur glímt við marga erfiðleika undanfarin ár og ekki síst reiði viðskiptavina fyrir dýr flugfargjöld, fjöldatafir, afbókanir og slæma meðferð á starfsfólki. Á sama tíma hafði þó flugfélagið skilað inn methagnaði.

„Margir atburðir sköðuðu Qantas og orðspor þess og ollu töluverðum skaða á samskiptum okkar við viðskiptavini, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila. Þó að engar endanlegar niðurstöður liggi fyrir þá urðu mistök í endurskoðun og hefur starfslokasamningur Joyce, sem átti að fá 21,4 milljónir dala, verið skorinn niður um 9,26 milljónir dala,“ segir í tilkynningu frá Qantas.