Bandaríski fast­eigna­fjár­festirinn Charles Cohen stendur nú frammi fyrir um­fangs­mikilli eigna­upp­töku eftir að fyrir­tæki hans stóð ekki í skilum með 535 milljóna dala láni frá fjár­festinga­fyrir­tækinu For­tress Invest­ment Group.

Þar sem Cohen hafði persónu­lega ábyrgst 187 milljónir dala af láninu, hefur For­tress nú hafið lög­form­legar að­gerðir til að ganga að persónu­legum eignum hans, þar á meðal lúxus­bílum, snekkjum, fast­eignum og dýr­mætu vín­safni.

Snemma í desember síðastliðnum gengu full­trúar franskra dómstóla inn í höll Cohens í Provence í Frakk­landi, Château de Chaus­se, þar sem þeir tóku með sér lista­verk, hús­gögn og úr­val af dýrum vínum.

Að­gerðin fór fram að beiðni For­tress, sem hefur nú þegar tekið yfir flestar fast­eignir sem veð­settar voru fyrir láninu en segir þær ekki duga til að standa undir skuldunum.

Château de Chausse, vínekra Cohens í Frakklandi.
Château de Chausse, vínekra Cohens í Frakklandi.

Fjár­festingafélagið hefur krafist hald­lagningar á ýmsum eignum Cohens í gegnum dómstóla í Bandaríkjunum og Evrópu.

Meðal þeirra eigna sem dómstólar hafa lagt hald á er 25 lúxus­bílar, þar á meðal tveir Ferrari-bílar.

Tvær snekkjur, þar á meðal 220 feta snekkja í ítalskri höfn, metin á nær 50 milljónir dala og svo lúxus­eignir hans í Connecticut í Bandaríkjunum og Provence í Frakklandi.

For­tress telur Cohen hafa reynt að komast hjá ábyrgð með því að færa eigur yfir á fjöl­skyldu­meðlimi. Þar á meðal var snekkja færð á nafn eigin­konu hans og fast­eignir skráðar á móður hans og systur.

Cohen segist hins vegar hafa gert þessar ráð­stafanir vegna skatta­legrar skipu­lagningar og arf­leiðar.

Cohen og lög­menn hans hafa höfðað gagnsókn gegn For­tress þar sem fyrir­tækinu er gert að sök um áreitni og óeðli­legar inn­heimtu­að­gerðir.

For­tress hefur fryst að­gang að persónu­legum fjár­reikningum Cohens, auk reikninga fjöl­skyldu hans.

„Líf fjöl­skyldunnar hefur orðið fyrir miklu raski,“ sagði lög­maður Cohens við réttar­höld í maí. „Þau hafa verið kölluð fyrir dóm, yfir­heyrð og sætt stöðugum þrýstingi.“

For­tress segir sig aðeins vera að verja hags­muni fjár­festa sinna, þar á meðal líf­eyris­sjóða og opin­berra stofnana.

„Við höfum ekki átt annan kost en að hefja fullnustu á eignum Cohens,“ sagði tals­maður fyrir­tækisins.

Lánið, sem er frá árinu 2022, var veitt í þeim til­gangi að endur­semja eldri skuldir fast­eignafélags Cohens og var tryggt með eignum á borð við skrif­stofu­turn í Man­hattan og hótel í Flórída.

Þegar heims­far­aldurinn skall á dróst eftir­spurn eftir skrif­stofurými veru­lega saman og rekstur kvik­mynda­húsa, sem Cohen hafði fjár­fest tölu­vert í, lamaðist.

Þrátt fyrir að samningar hafi verið endur­nýjaðir fjórum sinnum frá 2022 dugðu tekjur ekki til að greiða af láninu og í mars 2024 fór félagið í van­skil.

Cohen segir að hann hafi haft munn­legt sam­komu­lag um frekari fram­lengingu, en dómstóll í New York féllst á sjónar­mið For­tress og veitti fyrir­tækinu heimild til inn­heimtu.

Cohen hefur áður notað persónu­legar ábyrgðir við fjár­mögnun en þetta er í fyrsta sinn sem þær leiða til jafn víðtækrar eigna­upp­töku.

„Við höfum alltaf náð að halda út,“ sagði hann í viðtali við Wall Street Journal. „Og við munum halda því áfram.“

For­tress hefur verið fjár­mögnunar­aðili í mörgum af stærstu fast­eigna­verk­efnum Cohens á undan­förnum tveimur ára­tugum. Nú hefur sú sam­vinna snúist upp í eina um­töluðustu eigna­deilu bandaríska fast­eigna­markaðarins í mörg ár.