Bandaríski fasteignafjárfestirinn Charles Cohen stendur nú frammi fyrir umfangsmikilli eignaupptöku eftir að fyrirtæki hans stóð ekki í skilum með 535 milljóna dala láni frá fjárfestingafyrirtækinu Fortress Investment Group.
Þar sem Cohen hafði persónulega ábyrgst 187 milljónir dala af láninu, hefur Fortress nú hafið lögformlegar aðgerðir til að ganga að persónulegum eignum hans, þar á meðal lúxusbílum, snekkjum, fasteignum og dýrmætu vínsafni.
Snemma í desember síðastliðnum gengu fulltrúar franskra dómstóla inn í höll Cohens í Provence í Frakklandi, Château de Chausse, þar sem þeir tóku með sér listaverk, húsgögn og úrval af dýrum vínum.
Aðgerðin fór fram að beiðni Fortress, sem hefur nú þegar tekið yfir flestar fasteignir sem veðsettar voru fyrir láninu en segir þær ekki duga til að standa undir skuldunum.

Fjárfestingafélagið hefur krafist haldlagningar á ýmsum eignum Cohens í gegnum dómstóla í Bandaríkjunum og Evrópu.
Meðal þeirra eigna sem dómstólar hafa lagt hald á er 25 lúxusbílar, þar á meðal tveir Ferrari-bílar.
Tvær snekkjur, þar á meðal 220 feta snekkja í ítalskri höfn, metin á nær 50 milljónir dala og svo lúxuseignir hans í Connecticut í Bandaríkjunum og Provence í Frakklandi.
Fortress telur Cohen hafa reynt að komast hjá ábyrgð með því að færa eigur yfir á fjölskyldumeðlimi. Þar á meðal var snekkja færð á nafn eiginkonu hans og fasteignir skráðar á móður hans og systur.
Cohen segist hins vegar hafa gert þessar ráðstafanir vegna skattalegrar skipulagningar og arfleiðar.
Cohen og lögmenn hans hafa höfðað gagnsókn gegn Fortress þar sem fyrirtækinu er gert að sök um áreitni og óeðlilegar innheimtuaðgerðir.
Fortress hefur fryst aðgang að persónulegum fjárreikningum Cohens, auk reikninga fjölskyldu hans.
„Líf fjölskyldunnar hefur orðið fyrir miklu raski,“ sagði lögmaður Cohens við réttarhöld í maí. „Þau hafa verið kölluð fyrir dóm, yfirheyrð og sætt stöðugum þrýstingi.“
Fortress segir sig aðeins vera að verja hagsmuni fjárfesta sinna, þar á meðal lífeyrissjóða og opinberra stofnana.
„Við höfum ekki átt annan kost en að hefja fullnustu á eignum Cohens,“ sagði talsmaður fyrirtækisins.
Lánið, sem er frá árinu 2022, var veitt í þeim tilgangi að endursemja eldri skuldir fasteignafélags Cohens og var tryggt með eignum á borð við skrifstofuturn í Manhattan og hótel í Flórída.
Þegar heimsfaraldurinn skall á dróst eftirspurn eftir skrifstofurými verulega saman og rekstur kvikmyndahúsa, sem Cohen hafði fjárfest töluvert í, lamaðist.
Þrátt fyrir að samningar hafi verið endurnýjaðir fjórum sinnum frá 2022 dugðu tekjur ekki til að greiða af láninu og í mars 2024 fór félagið í vanskil.
Cohen segir að hann hafi haft munnlegt samkomulag um frekari framlengingu, en dómstóll í New York féllst á sjónarmið Fortress og veitti fyrirtækinu heimild til innheimtu.
Cohen hefur áður notað persónulegar ábyrgðir við fjármögnun en þetta er í fyrsta sinn sem þær leiða til jafn víðtækrar eignaupptöku.
„Við höfum alltaf náð að halda út,“ sagði hann í viðtali við Wall Street Journal. „Og við munum halda því áfram.“
Fortress hefur verið fjármögnunaraðili í mörgum af stærstu fasteignaverkefnum Cohens á undanförnum tveimur áratugum. Nú hefur sú samvinna snúist upp í eina umtöluðustu eignadeilu bandaríska fasteignamarkaðarins í mörg ár.