Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, ákvað í pontu Alþingis í morgun að saka Kópavogsbæ um að hafa staðið í vegi fyrir því að hægt væri að stækka vaxtarmörk sveitarfélaganna.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma spurði Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Ingu hvort hún teldi að það þyrfti að breyta deiliskipulagi höfuðborgarsvæðisins sér í lagi þar sem Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóri, sé í aðgerðarhóp í húsnæðismálum sem Inga skipaði

Sigurður sagði Dag hafa „staðið gegn því í lengst af sem oddviti Samfylkingarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu að breyta svæðisskipulaginu og vera í þéttingareitum.”

Inga sagðist stolt af hópnum en bætti síðan við að það væri Kópavogsbær sem hafi staðið í vegi fyrir að hægt væri að brjóta land utan vaxtamarka.

„Fyrir utan það að það er eiginlega Kópavogur sem hefur helst staðið í vegi fyrir því að við getum verið að stækka eins og við vaxtamörkin,“ sagði Inga á Alþingi.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hefur hins vegar verið einn helsti talsmaður þess að byggja megi utan vaxtamarka á meðan forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa beitt neitunarvaldi gegn því að vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins stækki umfram svæðisskipulagið frá árinu 2015.

Viðskiptablaðið óskaði eftir viðbrögðum frá bæjarstjóra Kópavogs við ummælum Ingu á þingi í morgun og segir Ásdís húsnæðismálaráðherra fara með rangt mál.

„ Þetta er alls ekki rétt. Sem bæjarstjóri Kópavogs hef ég bent á að forsendur vaxtamarka eru margbrostnar. Innan núverandi vaxtamarka getur Kópavogsbær ekki byggt nóg til að mæta væntri þörf sem er sorgleg staðreynd í ljósi þess að Kópavogur hefur bæði innviði og burði til að vaxa byggt á sterkum tekjugrunni sveitarfélagsins. Við höfum sagt það opinberlega að við viljum kanna hvort unnt sé að byggja á Gunnarshólmi, sem er svæði utan vaxtamarka. Sú beiðni er í undirbúningi,“ segir Ásdís.

„Reykjavík hefur hins vegar staðið fast á sinni þéttingarstefnu. Formaður skipulagsráðs í Reykjavík hefur andmælt áformum Kópavogsbæjar um breytingar á vaxtamörkum í Gunnarshólma. Þá hefur meirihlutinn í borginni fellt tillögu Sjálfstæðismanna í Reykjavík um að endurskoða vaxtamörkin. Ég tel rétt að ráðherra beini spurningu sinni frekar að Reykjavík og spyrja hvers vegna borgin ætli að standa í vegi fyrir breytingum á vaxtamörkum?“ bætir Ásdís við.